143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[16:16]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu í dag. Ég þakka að sjálfsögðu líka nefndarmönnum í utanríkismálanefnd sem fóru yfir samninginn og starfsfólki utanríkisráðuneytisins og þeim sem komu að gerð samningsins.

Umræðan í dag er búin að vera að mínu viti mjög góð. Menn hafa farið mjög vel yfir samninginn og það sem má segja að sé augljóst varðandi hann og snýr að viðskiptum og öðru slíku. Eðlilega og sem betur fer hafa þingmenn líka rætt vinnumál, mannréttindamál og ýmislegt fleira sem er mjög mikilvægt að ræða í tengslum við gerð samningsins og margra annarra samninga sem við gerum.

Það er búið að fara ágætlega yfir helstu athugasemdir sem komu fram á fundum nefndarinnar og þau tækifæri sem felast í þessum samningi og menn hafa líka farið yfir það sem ber að varast.

Ég held að það hafi komið fram ein bein spurning til þess sem hér stendur um samninginn, hún var um afstöðu Alþýðusambands Íslands til samkomulagsins sem snýr að vinnumálum. Það er ánægjulegt að segja frá því að Alþýðusambandið og í raun aðilar vinnumarkaðarins sem fengu þetta til umsagnar var ásátt og samþykkt því samkomulagi sem þar er gert, þ.e. innihaldi þess. Það er mjög mikilvægt að við fáum þetta tækifæri til að eiga samskipti við kínversk stjórnvöld er lúta að mannréttindum og vinnumálum. Það er svo okkar að sjálfsögðu að nýta það samkvæmt þessu samkomulagi.

Ég lít svo á að samningurinn sé upphafið að enn meiri samskiptum milli Íslands og Kína. Ég held að við eigum eftir að sjá viðskipti milli þessara landa aukast, ég vona það í það minnsta. Hann ætti líka að gefa okkur tækifæri til að eiga fleiri samtöl við kínverska ráðamenn og fyrir íslensk fyrirtæki að eiga samtöl við kínversk fyrirtæki um aðbúnað verkafólks, um mannréttindi og annað sem því tengist.

Ég fagna því að við séum komin á þennan stað með samninginn. Nú fer atkvæðagreiðsla fram um hann væntanlega í næstu viku ef ég veit rétt. Ég vona að sjálfsögðu að hann verði þá samþykktur. Gangi það eftir að samningurinn verði samþykktur eftir helgi ætti hann, samkvæmt þeim tímaramma sem við þekkjum varðandi slíka samninga, að verða virkur um mánaðamótin júní/júlí eða að minnsta kosti í sumar.

Ég þakka að lokum þingmönnum fyrir mjög efnisríka og málefnalega umræðu um þennan samning.