143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[16:19]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka fyrir þessar umræður. Það er mjög gott að öll þessi viðhorf séu nú til skjalfest og eins og ég sagði áðan þá óska ég þess svo innilega að ég hafi alrangt fyrir mér.

Mig langaði að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort ekki væri tilefni til að sýna að við höfum bein í nefinu, að bjóða Dalai Lama til dæmis í opinbera heimsókn. Síðasta ríkisstjórn var eitthvað skjálfandi í hnjánum þegar Dalai Lama kom til landsins. Það átti ekki einu sinni að bjóða friðarverðlaunahafanum og andlegum leiðtoga Tíbeta almennilega móttöku þegar hann kom til landsins. Það var í raun og veru hneisa hvernig var komið fram við Dalai Lama.

Mig langaði að spyrja hvort hæstv. utanríkisráðherra hafi ekki meira bein í nefinu en fyrrverandi ríkisstjórn og hvort ekki sé fullt tilefni til að skoða það að bjóða Dalai Lama í opinbera heimsókn eða jafnvel ráðamönnum Taívan.