143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[16:24]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessar spurningar. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni um að við megum aldrei lenda í þeirri stöðu að verða einhvers konar viðhlæjendur Kínverja eða annarra ríkja þegar kemur að mannréttindamálum. Ég óttast í sjálfu sér ekki að við lendum í þeirri stöðu að verða háð Kínverjum, ekki frekar en við erum háð öðrum í dag þegar kemur að viðskiptum eða öðru slíku. Við höfum sýnt það að hvort sem er í vestur eða inn í Evrópu eða annað að við getum átt viðskipti við þessi ríki eða ríkjasambönd þó að við séum þeim ósammála. Við höfum, á meðan á þessu samningaferli við Kínverja hefur staðið, rætt við ráðamenn þegar þeir hafa komið hingað um mannréttindi eða vinnuaðbúnað og þess háttar. Það gerði síðast forsætisráðherra þegar hingað kom leiðtogi frá Kína fyrir stuttu.

Við horfum á þá stöðu sem við þekkjum þegar við fjöllum um vinnumál og mannréttindi. Það er að sjálfsögðu aðbúnaður verkafólks. Við vitum að í mörgum verksmiðjum og á vinnustöðum, í Kína og í löndunum í kring, er aðbúnaðurinn skelfilegur. Við höfum rætt um frelsi til að tjá sig. Við höfum rætt um frelsi til að koma fram og segja hug sinn, fjölmiðlafrelsi, jafnrétti og þess háttar. Þetta eru allt hlutir eða atriði sem við höfum á stundum tekið upp við Kínverja og munum að sjálfsögðu gera áfram.

Við gerum þetta líka þegar við ræðum við ríki þar sem við teljum að verið sé að mismuna eða koma fram við fólk með óréttmætum hætti. Það gerum við varðandi Rússland. Það höfum við gert varðandi Úkraínu og það höfum við gert varðandi mörg Afríkuríki þegar kemur að réttindum samkynhneigðra, ólíkum kynþáttum, trúarbrögðum og þess háttar. Við munum að sjálfsögðu halda því áfram.