143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[16:26]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því. Það er einn stór svartur blettur í samskiptum Kínverja og Íslendinga að mínu viti og það var framferði íslenskra stjórnvalda í garð iðkenda Falun Gong og í raun annarra í tilefni af heimsókn forseta Kína 2002 til Íslands. Eins og rakið hefur verið í ágætum bókum og greinargerðum þá létu íslensk stjórnvöld að því er virðist stjórnast af kínverskum hagsmunum og meinuðu fólki af asískum uppruna að koma til Íslands á grundvelli lista sem var kallaður svarti listinn sem var látinn ganga og var notaður af íslenskum yfirvöldum, meðal annars til að halda ferðalöngum í prísund í Njarðvík. Þetta voru stórfelld mannréttindabrot og eru svartur blettur á samskiptum okkar við Kínverja.

Mér finnst áríðandi að vita hvort hjartað er algerlega á réttum stað í mannréttindamálum að þessu sinni gagnvart Kína og ég spyr því: Er hæstv. utanríkisráðherra reiðubúinn að biðja Falun Gong afsökunar á þessu?