143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[16:28]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þessa spurningu. Í fyrsta lagi vil ég segja að hagsmunir þeir sem við eigum og verðum að hafa í huga eru íslenskir hagsmunir. Við getum ekki látið stjórnast af kínverskum hagsmunum þegar kemur að því að ræða mannréttindi eða taka ákvarðanir um viðskipti og annað, við hljótum að taka það upp hjá okkur sjálfum.

Hv. þingmaður spyr hvort sá er hér stendur sé tilbúinn að biðja Falun Gong afsökunar á því sem hér var gert. Ég ætla að sjálfsögðu að vera heiðarlegur og hreinskilinn við hv. þingmann. Ég tel það ekki vera í mínum verkahring að gera það. Ef það er hins vegar þannig að íslensk stjórnvöld komast að þeirri niðurstöðu að það skuli gert, að brotið hafi verið á þessum hópi fólks eins og ásakanir eru um og vísbendingar hafa verið leiddar að, þá er það að sjálfsögðu eitthvað sem kemur til greina. Ég er ekki tilbúinn til að segja það hér og nú eins og hv. þingmaður veit. Fram kom þingsályktunartillaga, ef ég man rétt á síðasta þingi, frá hv. þingmanni og fleirum. Ég var ekki hrifinn af því á þeim tíma og taldi það kannski ekki alveg þjóna tilgangi sínum.