143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[16:29]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Þetta verður náttúrlega samþykkt hérna og við munum fara í þetta efnahagslega faðmlag við Kína og það mun hafa í för með sér efnahagslegan ávinning fyrir Ísland. Það er alveg ljóst.

Við skulum ekki fara í neinar grafgötur eða blekkingarleik með það að fólk eigi ekki að efast um að íslensk stjórnvöld og viðskiptalíf muni í kjölfarið dansa meira eftir höfði drekans. Að sjálfsögðu mun það gerast, efnahagslegir hagsmunir verða tengdari. Eins og hæstv. utanríkisráðherra segir þá verða það hagsmunir Íslands sem skipta máli. Ísland á að hugsa um sína hagsmuni og þá verða það hagsmunir Íslands að hugsa um hagsmuni Kína. Þeir eru tengdir þarna nánar.

Ég segi í meira mæli því að íslensk stjórnvöld hafa áður, að beiðni kínverskra yfirvalda, brotið mannréttindi og meðal annars á íslenskum borgurum, það er rétt. Þegar forseti Kína, Jiang Zemin, kom til Íslands 2002 þá fór ég ásamt félögum mínum og við mótmæltum mannréttindabrotum íslenskra stjórnvalda gagnvart iðkendum Falun Gong og náttúrlega mannréttindabrotum Kínverja.

Við þá iðju við Geysissvæðið vorum við handteknir. Við kærðum þá handtöku og unnum að sjálfsögðu fyrir dómi, út af því að hún var kolólögleg. Dómari komst að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið á mannréttindum okkar. Það er alveg ljóst að kínversk yfirvöld kölluðu eftir þessu. Íslensk stjórnvöld hafa nú þegar að kröfu kínverskra yfirvalda brotið á mannréttindum íslenskra borgara.

Þessi mannréttindaumræða virðist öll vera svolítið glassúr á toppnum. (Forseti hringir.) Hvað ætlar hæstv. utanríkisráðherra að gera núna strax til að sýna okkur að þetta (Forseti hringir.) sé ekki bara glassúr, að það eigi að nota þessi tækifæri (Forseti hringir.) til að krefja Kínverja um að virða mannréttindi?