143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[16:35]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að í samskiptum við erlend ríki, við Kína sem önnur ríki, þurfum við að sjálfsögðu að vera varkár. Við þurfum að horfa á þetta út frá okkar stöðu og hagsmunum. En það er hins vegar þannig að Kína er að breytast, aðstæður í Kína eru að verða aðrar. Aldrei hafa til dæmis fleiri Kínverjar ferðast en á síðasta ári. Ef ég man þessar tölur rétt þá hafa kannski 80 milljónir Kínverja komið til Evrópu á síðasta ári. Ég hef þó fyrirvara á þessu, það eru alla vega háar tölur, tölur yfir Kínverja sem eru farnir að ferðast. Þeir eru því farnir að sjá meira af heiminum og vita hvernig þetta þróast allt saman. Kínversk stjórnvöld eru opnari en þau hafa verið oft áður varðandi samfélag sitt og slíkt.

Það eru mörg ríki sem öfunda okkur af því að hafa náð þessum samningi. Hann gæti orðið fyrirmynd fyrir einhverja, vonandi. Ég vona að fleiri fái slíka samninga. Hv. þingmaður nefndi Taívan. Ég fór þangað í heimsókn fyrir tveimur til þremur árum, mjög áhugavert að koma þangað. Íslendingar eiga í viðskiptum við Taívan í dag, (Forseti hringir.) ekki með frjálsum samningum eða slíku en við erum að kaupa af þeim veiðarfæri og flytja eitthvað smávegis út til þeirra. Þetta er því ekki alveg lokað en samkvæmt þessum samningi, það er rétt, þá horfum við á eitt Kína.