143. löggjafarþing — 56. fundur,  27. jan. 2014.

hlutverk verðtryggingarnefndar og verðtryggð lán.

[15:15]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra um sama efni. Hér á liðnu ári innti ég hæstv. forsætisráðherra eftir því hvers vegna stjórnarandstaðan fengi ekki fulltrúa í þeim verkefnahópum sem hefðu verið settir á um skuldaleiðréttingu annars vegar og afnám verðtryggingar hins vegar.

Svarið var að hóparnir hefðu ekki neitt verkefni um stefnumörkun heldur hefðu bara það verkefni að útfæra það sem þegar væri búið að ákveða. Þetta vekur athygli í ljósi þess að meiri hluti svokallaðrar verðtryggingarnefndar leggur ekki fram útfærslu á neinu afnámi verðtryggingar. Þess vegna hlýtur maður að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort þeim hafi ekki verið falið að útfæra afnám verðtryggingar. Fyrst nefndarmenn koma ekki fram með tillögur um það, eins og lofað var að lægju hér á borðinu í nóvember, er eðlilegt að spyrja hvort hæstv. forsætisráðherra hyggist koma með tillögur um það hér inn í febrúar eða mars eða hvort Framsóknarflokkurinn sé bara hættur við að efna stærsta kosningaloforðið Íslandssögunnar.

Ég hlýt líka að spyrja hæstv. forsætisráðherra um efndir á innan við ársgömlum loforðum sínum um það að fólki með verðtryggð lán eigi að bjóðast að flytja sig yfir í óverðtryggð lán. Það fyrirheit gaf hæstv. forsætisráðherra 15. mars á síðasta ári undir yfirskriftinni „Þetta er ekki flókið“.

Hæstv. forsætisráðherra. Úr því að þetta er ekki flókið, hversu lengi eiga þá þeir tugir þúsunda sem eru bundnir með verðtryggð lán að bíða eftir útfærslunni á því sem forsætisráðherra segir að hafi þegar verið ákveðið og hvenær á fólki að bjóðast að flytja sig yfir í óverðtryggð lán?