143. löggjafarþing — 56. fundur,  27. jan. 2014.

rekstrarvandi hjúkrunarheimila.

[15:36]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina um það brýna vandamál sem hér er við að glíma. Það er alveg ljóst að rekstrarvandi hjúkrunarheimila er ærinn, töluverður, og hefur verið svo um alllanga hríð. Ég vil þó undirstrika að afkoma þeirra er misjöfn, dvalarheimila og hjúkrunarrýma, sum hver eru rekin réttum megin við núllið meðan önnur eru að glíma við verulegan vanda. Nægir í því sambandi að nefna margra ára uppsafnaðan vanda á Sunnuhlíð í Kópavogi.

Hér er gerð að umtalsefni staða Vesturlands. Hún er á sumum stöðum erfið. Ég hef sett í gang vinnu við samþættingu öldrunarmála í Stykkishólmi vegna þess að hv. þingmaður gerði það að sérstöku umræðuefni. Ég tel mjög tímabært að hefjast handa við það, vissulega. Það sem á síðan að gera í framhaldinu er að mínu mati það að við verðum með einhverjum hætti að fá betri mynd á stöðuna í þessum málaflokki. Ég hef sett niður vinnu við að gera heildarúttekt á stöðu þessa málaflokks fjárhagslega en ekki síður faglega. Ég held að það sé líka nauðsynlegt að endurskoða laga- og regluverkið í þessum efnum, í því sem lýtur að matsáætlun, vinnu með mat o.s.frv.

Ég er ekki sammála því sjónarmiði, sem hér var endurspeglað í ræðu hv. þingmanns, að það dugi að hækka dvalargjöldin um 15%. Það þykir mér fullmikil alhæfing. Ég vek athygli á því að aðbúnaður vistmanna á heimilum er ærið misjafn, heimilin eru misgóð hvað varðar aðbúnað o.s.frv. Daggjaldið er eitt og hið sama um allt land þannig að ég tel, (Forseti hringir.) miðað við þær fjárhæðir sem hér eru í húfi, að mun betur þurfi að vanda til verka og spila betur úr hlutum frekar en að hækka þetta almennt yfir línuna um heil 15%.