143. löggjafarþing — 56. fundur,  27. jan. 2014.

rekstrarvandi hjúkrunarheimila.

[15:38]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ef ég gríp á lofti það álit forstöðumannanna að hækka þurfi daggjöldin um 15% ef ekki eigi illa að fara vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji að daggjöld eigi að vera mismunandi eftir því hvort um er að ræða ný hjúkrunarheimili eða eldri; við vitum vissulega að aðstaða er misgóð eftir hjúkrunarheimilum. Telur hann að meta eigi það með ólíkum hætti hvort um ný eða eldri heimili er að ræða? Miðað við þann mikla rekstrarvanda sem er hjá þeim heimilum sem hann nefndi telur hann hægt að bíða eftir úttekt hóps um þessi mál eitthvað fram á árið? Ég spyr líka hvort ekki hafi verið gert ráð fyrir því í fjárlögum fyrir þetta ár að koma þyrfti inn í og mæta þeim mikla vanda sem vissulega er fyrir hendi og verður ekki (Forseti hringir.) komist hjá að gera eitthvað í hvort sem okkur líkar betur eða verr.