143. löggjafarþing — 56. fundur,  27. jan. 2014.

upplýsingar um hælisleitendur.

[15:48]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að taka upp þessa umræðu á Alþingi. Líkt og þingmaðurinn nefndi ítrekað er margt að gerast í þessum málaflokki á Íslandi og þess vegna nauðsynlegt að hér fari reglulega fram umræða um þau mikilvægu og ört fjölgandi mál sem tengjast hælisleitendum á Íslandi. Ég held að við höfum öll það markmið og þann metnað að gera vel í þeim málaflokki.

Mörg þau viðfangsefni sem tengjast þessum málaflokki eru ný fyrir íslenskt samfélag, alveg ný, og þurfa að vera í stöðugri endurskoðun. Því fagna ég tækifærinu til að ræða fyrirkomulag þessara mála, eins og við höfum reyndar oft gert á hinu háa Alþingi.

Hv. þingmaður spyr hvaða upplýsingum sé safnað um hælisleitendur. Því er til að svara að í fyrsta lagi eru fengnar upplýsingar um skilríki og fingraför, í þeim tilvikum þar sem skilríki eru til staðar og fingraför hafa ekki verið afmáð. Þá eru fengnar upplýsingar í skýrslutöku hjá lögreglu og Útlendingastofnun auk upplýsinga um hælisumsóknina sjálfa, svo sem greinargerð frá talsmönnum og önnur gögn sem hælisleitandinn sjálfur leggur fram.

Í öðru lagi spurði hv. þingmaður hverjir safni eða varðveiti fyrrgreindar upplýsingar. Það gera Útlendingastofnun, ríkislögreglustjóri, einstaka embætti lögreglustjóra, félagsþjónustan víða um land, lögmenn hælisleitenda og eftir atvikum sálfræðingar og læknar. Innanríkisráðuneytið fær umrædd gögn en aðeins þegar úrskurðir Útlendingastofnunar eru kærðir til ráðuneytisins, annars ekki.

Hvað varðar hins vegar úrskurði ráðuneytisins sjálfs eru þeir sendir til ríkislögreglustjóra, Útlendingastofnunar, Rauða krossins sem og lögmanns viðkomandi hælisleitenda. Hvað varðar aðgang að umræddum gögnum hafa starfsmenn framangreindra stofnana aðgang að þeim sem og lögmenn hælisleitenda. Að þessu sögðu er ljóst að allir framangreindir aðilar geta búið yfir ýmsum upplýsingum um hælisleitendur, þó mismiklum eftir aðkomu þeirra að málum.

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spyr hvort ástæða sé til að ætla að trúnaðarupplýsingar berist víðar en vera skyldi og séu jafnvel misnotaðar. Í því sambandi ítreka ég þau umhugsunarefni sem ég hef áður nefnt úr þessum ræðustóli og gildir í raun um alla stjórnsýsluna okkar og þær trúnaðarupplýsingar sem þar er að finna. Í fyrsta lagi verðum við stöðugt að spyrja okkur hvort eitthvað í fyrirkomulaginu bendi til þess að skýrum verklagsreglum um meðferð gagna sé ekki fylgt. Í öðru lagi hvort kerfin sem utan um þessar upplýsingar halda séu nægilega vel varin og utanaðkomandi aðilar geti ekki með ólögmætum hætti nálgast umræddar upplýsingar. Hvað báða þessa þætti varðar er íslensk stjórnsýsla talin vel varin.

Annars vegar gilda um meðferð trúnaðargagna mjög ákveðnar verklagsreglur, bæði hjá ráðuneytum og undirstofnunum. Rétt er í því sambandi að minna til dæmis á að innanríkisráðuneytið eitt og sér fær til umsagnar og afgreiðslu yfir 5 þúsund mál á ári. Stór hluti þeirra mála inniheldur trúnaðargögn og miðað við reynsluna má fullyrða að starfsmenn fylgi ýtrustu verklagsreglum, virði trúnað og sinni störfum sínum af mikilli vandvirkni og trúmennsku.

Hins vegar, varðandi vernd umræddra upplýsinga gegn því að óviðkomandi geti með ólögmætum hætti nálgast þær, er talið að varnirnar séu fullnægjandi. Ljóst er þó að miðað við þá þekkingu, upplýsingar og fréttir sem við fáum daglega um aðgengi að rafrænum gögnum að íslensk stjórnsýsla þarf að tryggja stöðuga vakt og eftirlit hvað þetta varðar, ekki síst með hliðsjón af persónuvernd.

Virðulegur forseti. Þingmaður spyr einnig um fréttir þess efnis að trúnaðargögn um einstaka hælisleitendur hafi verið afhent úr innanríkisráðuneytinu til óviðkomandi aðila. Til að svara því ítreka ég það sem ég hef áður sagt um þetta mál. Ráðuneytið hefur með margvíslegum hætti kannað hvort trúnaðargögn hafi verið send úr ráðuneytinu til óviðkomandi aðila. Í framhaldi af kvörtun lögmanns hælisleitanda var það gert með samtölum við starfsmenn, skoðun á gagnagrunni ráðuneytisins, samanburði á þeim gögnum sem til eru í ráðuneytinu og um hefur verið fjallað í fjölmiðlum samhliða því sem rekstrarfélag Stjórnarráðsins gerði sjálfstæða athugun á því hvort ætla mætti að tölvutæk trúnaðargögn vegna málsins hefðu farið úr ráðuneytinu.

Niðurstaða þessara athugana er að ekkert í gögnum ráðuneytisins bendi til þess að trúnaðargögn hafi verið send til aðila sem ekki eiga rétt á þeim lögum samkvæmt. Frá þessu hefur ráðuneytið ítrekað greint í svörum sínum til lögmanna hælisleitenda, í svörum til fjölmiðla og ítrekuðum yfirlýsingum á heimasíðu ráðuneytisins. Þrátt fyrir það eru áfram fluttar fréttir af meintum leka úr ráðuneytinu og jafnvel án þess að orðið „meintur“ sé notað. Þótt nú hafi í kjölfar kæru lögmanns hælisleitanda verið óskað eftir frekari upplýsingum um málið hjá ríkissaksóknara, sem þá mætti ætla að tryggði að þeir sem harðast hafa gengið fram í þessu máli gætu verið vissir um að málið verði ekki aðeins skoðað hjá ráðuneyti og Stjórnarráði heldur einnig hjá þeim þriðja aðila sem fer með slík mál, er áfram haldið að vega að heiðri og trúmennsku þeirra sem í ráðuneytinu starfa.

Ég harma það og ég get fullvissað þingheim um (Forseti hringir.) að ráðuneytið vinnur vel og öflugt að þessum málum. Ég get einnig tryggt það að komi í ljós að eitthvað þurfi að bæta í verklagi Stjórnarráðsins eða innanríkisráðuneytisins og undirstofnunum (Forseti hringir.) hvað þetta varðar verður það gert. En ég vona að við getum átt hér góðar og málefnalegar umræður um þessi mál.