143. löggjafarþing — 56. fundur,  27. jan. 2014.

upplýsingar um hælisleitendur.

[15:59]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, fyrir að hefja þessa umræðu um málefni hælisleitenda og hæstv. ráðherra Hönnu Birnu Kristjánsdóttur fyrir skýr svör.

Eins og kunnugt er mælti hæstv. innanríkisráðherra nýlega fyrir frumvarpi um breytingu á lögum nr. 96/2002, um útlendinga. Innanríkisráðherra hefur með því frumvarpi markað fyrstu sporin á leið ríkisstjórnarinnar til að auka gæði og einfalda til muna móttöku og meðferð umsókna hælisleitenda til að gera ferlið mannúðlegra og sinna þeim betur sem á vernd þurfa að halda. Vandaðri vinnubrögð á öllum sviðum í þessu ferli eru okkur mikilvæg. Það er í þá átt sem mér finnst þessi umræða vera að leiða okkur til.

Eins og fram hefur komið hefur orðið sú breyting á síðustu árum að fjölgun umsókna hælisleitenda hefur verið mjög mikil og þar af leiðandi hefur kostnaður margfaldast. Ástæður fyrir því eru fjölbreyttar, m.a. liggja þær í breyttum reglum og því að ákveðnir aðilar hafa fundið út að hér sé heppilegt að leita hælis fyrir þá sem hafa hag af því að afgreiðsla umsókna taki langan tíma. Ástandið hefur því bitnað á þeim sem eru raunverulegir hælisleitendur og fá stöðu flóttamanns eftir að úrskurðað hefur verið í þeirra málum. Þannig tefur þetta ástand fyrir því að flóttamenn sem hér fá hæli geti byrjað nýtt líf í nýju landi. Þessu þurfum við að breyta og þessu erum við að bregðast við.

Á hinn bóginn hefði ég velt fyrir mér hvort úrskurðir í þessum málum séu á einhvern hátt frábrugðnir dómum. Í löndunum í kringum okkur eru úrskurðir (Forseti hringir.)opinberir eins og dómar, eftir að þeir hafa verið kveðnir upp.