143. löggjafarþing — 56. fundur,  27. jan. 2014.

upplýsingar um hælisleitendur.

[16:05]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Í það minnsta það mál sem hér er til umræðu og varðar hælisleitendur hefur þegar verið kært, til ríkissaksóknara og til lögreglu, ef ég fer rétt með. Það hlýtur því eðli málsins samkvæmt að fara fram rannsókn á því hvaðan minnisblaðið kom og hver afhenti það. Sú rannsókn hlýtur að vera farin í það ferli sem slík mál eiga að fara í.

En það verð ég að segja, virðulegur forseti, að mér finnst vart við hæfi þegar mál eru komin í þann farveg að við ræðum þau hér og nafngreinum skjólstæðingana sem hlut eiga að máli úr ræðustól Alþingis. Hins vegar er algjörlega ljóst að við þurfum að gera breytingar í málefnum hælisleitenda og það hefur hæstv. innanríkisráðherra gert, hún hefur lagt fram frumvarp til breytinga á því ferli sem þegar er viðhaft. Það er óþolandi fyrir þann sem sækir hér um hæli að þurfa að bíða mánuðum saman eftir því að fá að vita hvort eða hvenær mál hans verður tekið fyrir. Við hljótum að geta tekið upp verkferla eins og hér hefur verið bent á að eru í Noregi, að menn fái að vita innan 48 klukkustunda hvort mál þeirra verður tekið til skoðunar eður ei. Þeir þurfa þá ekki að bíða í það minnsta í sex eða átta vikur eftir því svari.

Virðulegur forseti. Af því að við ræðum hér minnisblað sem kemur einhvers staðar frá og ég get hvorki svarið fyrir að það hafi ekki farið úr innanríkisráðuneytinu né öðrum stofnunum, ég hef ekki hugmynd um það, þá vakti furðu mína, frú forseti, og ég verð að nefna það, að hér skyldi hv. málshefjandi vitna í umræður og orð hæstv. ráðherra innan stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Þar hélt ég að ríkti trúnaður.