143. löggjafarþing — 56. fundur,  27. jan. 2014.

upplýsingar um hælisleitendur.

[16:08]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Umræðan sem hér fer fram um upplýsingasöfnun um hælisleitendur, varðveislu og notkun slíkra upplýsinga er bæði þörf og brýn. Umræðan er þörf og fram hafa komið ásakanir um að misfarið hafi verið með persónuupplýsingar tiltekins hælisleitanda. Ég vil ekki taka afstöðu til þess máls að svo stöddu. Mér finnst rétt að það verði rannsakað áfram og spurning hvort það eigi ekki best heima í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. En þetta vekur athygli á því hversu mikilvægt er að öll umræða og meðferð mála í málefnum hælisleitenda sé vönduð og stjórnsýslan sé í lagi.

Því miður höfum við nýverið séð dæmi um að gáleysislega hafi verið farið með upplýsingar um einstaklinga hér á landi hjá ákveðnu símafyrirtæki. Slíkir atburðir valda að sjálfsögðu trúnaðarbresti auk þess tjóns sem einstaklingar verða fyrir. Í nútímasamfélagi er upplýsingum safnað mikið saman og hætt er við því að hægt sé að misnota þær og misfara með. Í slíkri upplýsingasöfnun, hvort sem er hjá stjórnvöldum eða öðrum, er gerð mikil krafa um heiðarleika og trúverðugleika og að vel sé staðið að verki, en hvers kyns hugsanleg brot eða misferli leiða til vantrausts, þá til stjórnvalda í þessu tilfelli ef þau meintu brot gegn hælisleitanda eru veruleiki sem ég ætla ekki að fullyrða.

Mér finnst að fá þurfi botn í þetta mál allra vegna og eftir það sem á undan er gengið á hæstv. innanríkisráðherra það erfiða verkefni fyrir höndum að fá botn í þetta mál hennar vegna og okkar allra.