143. löggjafarþing — 56. fundur,  27. jan. 2014.

upplýsingar um hælisleitendur.

[16:14]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég vil taka undir síðustu orð síðasta ræðumanns, að mér finnst það ekki svar við því sem við ræðum hér að nú sé málið í lögreglurannsókn. Ég hefði viljað að hægt hefði verið að skýra þetta eitthvað betur fyrir okkur hér.

Hæstv. ráðherra fór vel yfir starfsferla og verkferla og hverjir fái upplýsingar og telur að allt sé þetta í lagi, en það er ljóst, virðulegi forseti, að þetta er ekki í lagi. Þarna fara upplýsingar einhvers staðar út úr kerfinu og það er mjög alvarlegt. Hæstv. ráðherra, sem vinnur mjög vel á mörgum sviðum, eins og ég hóf inngang minn á, hún vinnur virkilega að þessum málum, en það er ekki nóg ef það er brotalöm af þessu tagi einhvers staðar í kerfinu.

Hæstv. ráðherra fer svolítið í það far að segja að samt sem áður haldi fólk áfram að beina spjótum sínum að henni og níðast — ekki níðast, hún notar ekki það orð — og saka embættismenn og starfsmenn innanríkisráðuneytisins og hvað það sé ljótt. Hvernig leið hælisleitandanum þegar honum birtist þetta? Hvernig líður fólki sem sér þetta minnisblað um sig? Það hefur ekki stöðu embættismanns, það er óvarið. Það er okkar og það er ráðherrans að komast að því: Hvernig gat þetta gerst?