143. löggjafarþing — 56. fundur,  27. jan. 2014.

upplýsingar um hælisleitendur.

[16:16]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki hversu oft ég þarf að segja það hér og annars staðar, og ég held að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, talandi um trúnað, ætti að læra að virða hann sjálf. Ég hvet hana til þess að kynna sér þingsköpin áður en menn fara hér mikinn og vitna í samtöl á nefndarfundum.

Ég hvet líka hv. þm. Mörð Árnason sem hefur umrætt minnisblað undir höndum, hann hefur upplýst það hér, til að upplýsa þingheim um það hvaðan hann fékk minnisblaðið, vegna þess að minnisblaðið sem hefur verið í gangi á ýmsum fjölmiðlum og hér og þar er ekki sambærilegt við nein gögn í ráðuneytinu. Ég hvet hv. þingmann endilega til þess að koma með gagnið.

Svo vitna menn aftur og aftur í niðurstöður í minnisblöðum, sem eiga að vera minnisblöð úr innanríkisráðuneytinu, og fara mikinn í því. Við erum búin að gera það sem við getum, ráðuneytið er búið að gera það sem það getur til þess að skoða málið með því að kanna það hjá starfsmönnum, með því að fara í gegnum tölvupósta o.s.frv. Nú er málið í kæruferli. Það er hinn löglegi, eðlilegi farvegur. En áfram halda menn að tala um málið, áfram halda menn að bera fram ásakanir í garð fólks sem kemur að því. Eigum við ekki að bíða eftir niðurstöðunni áður en við fellum slíka dóma?

Það hefur á engan hátt staðið á ráðuneytinu að skoða málið. Og já, það læðist að manni sá grunur, þegar það er alveg sama á hvaða vettvangi er upplýst um málið, sama hversu oft er upplýst um það og það sé komið í kæruferli og menn halda samt áfram með ásakanirnar, að málið snúist um eitthvað allt annað en trúnaðarupplýsingar gagnvart hælisleitendum. Það snúist um pólitík, það snúist um að koma í veg fyrir að ráðuneytið geti með trúverðugum hætti unnið að þessum mikilvægu málefnum og það snúist um að koma í veg fyrir að sá ráðherra sem hér stendur geti innleitt breytingar sem sannarlega er ágreiningur um. Já, það læðist að manni sá grunur að málið snúist um það.

Það hefur ekki staðið á innanríkisráðuneytinu, starfsmönnum þess eða embættismönnum að kanna málið. En ég hvet hv. þingmenn, sem upplýsa það hér eins og ekkert sé eðlilegra (Forseti hringir.) að þeir séu með umrætt minnisblað, að tilkynna hvaðan þeir fengu það, vegna þess að (Forseti hringir.)innanríkisráðuneytið getur ekki fundið þess stað að það hafi farið úr ráðuneytinu.(Gripið fram í.)