143. löggjafarþing — 56. fundur,  27. jan. 2014.

staða sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu.

[16:34]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni, fyrir að hefja máls á þessu mjög svo knýjandi umræðuefni um stöðu sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu. Jafnframt vil ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir upplýsingar hans og ekki síður viðbrögð þar sem hann lýsir yfir sterkum samningsvilja til að ná samkomulagi við stjórn slökkviliðs á höfuðborgarsvæðinu. Því fagna ég mjög. Allir eru í raun sammála um að þessi deila hefur staðið of lengi og hana þarf að leysa.

Hér er um gríðarlega fjármuni og hagsmuni borgaranna að tefla og það hvernig fara skuli á sem skynsamlegastan og hagkvæmastan hátt með skattfé. Skýrsla KPMG sýnir óyggjandi það hagræði sem felst í samrekstri slökkviliðs og sjúkraflutninga, það er rétt og um það er ekki deilt. Þar er samlegðin metin á 480 millj. kr. Hæstv. ráðherra vísar hins vegar til gagna sem benda til þess að ríkið sé farið að greiða niður rekstur slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu. Það verðum við að skoða. Þannig hafi kostnaður við rekstur slökkviliðsins farið lækkandi á hvern íbúa. Á sama tíma og við höfum verið að skera niður í heilbrigðismálum hafi kostnaður við sjúkraflutninga farið hækkandi.

Virðulegi forseti. Ásamt því að fara á mis við þjóðhagslegan sparnað er um öryggi borgaranna að ræða þar sem íbúum í elstu aldurshópunum fer fjölgandi og þar með álagi á sjúkraflutninga. Áður en við köstum fyrir róða aldareynslu og þekkingu og samþykkjum slík verklok hljótum við að kalla eftir skýrum rökum og talnagögnum og þá vísa ég til upplýsinga hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) þannig að við höfðum til ábyrgðarkenndar beggja aðila.