143. löggjafarþing — 56. fundur,  27. jan. 2014.

staða sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu.

[16:41]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þessa umræðu. Ég ætla að segja í upphafi að eftir að hafa setið í hv. velferðarnefnd í morgun og hlustað á hæstv. ráðherra hér í dag er greinilegt að vilji hæstv. ráðherra er að byrja upp á nýtt í þessu ferli og þar með sniðganga þann samkomulagsgrundvöll sem lagður var með minni vitund og vilja með bakstuðningi í þáverandi ríkisstjórn, þótt okkur tækist ekki að klára vinnuna, samkomulagsgrundvöll sem lokið var 1. febrúar fyrir ári.

Ég get alveg sagt það strax vegna þess að það er ágætt að það komi fram að við afgreiddum í tvígang ákveðnar fjárveitingar inn í ríkisstjórn sem ekki fóru í gegn. Það er ekki við annan að sakast hér fyrir að þau mál skuli ekki vera komin í höfn en núverandi ríkisstjórn, a.m.k. ætti að vera yfirlýsing um að menn ætli að nota alla þá miklu vinnu sem var búið að vinna. Það var búið að fara í gegnum öll álitamálin sem hafa komið fram í umræðunni um hvort hægt væri að gera þetta á hagkvæmari hátt, hvort ætti að aðskilja starfsemina. Öll sú vinna fór fram. Niðurstaðan varð samkomulagsgrundvöllur sem gerður var 1. febrúar sem fulltrúar mínir í samninganefnd settu stafina sína á, skrifuðu undir í mínu umboði, þannig að það sé upplýst og menn séu ekkert að dylgja um að ekki hafi verið bakstuðningur við þá ákvörðun. (VigH: Af hverju fór það ekki í gegn?)Af því að ekki vannst tími til þess.

Ég vil vekja athygli hv. formanns fjárlaganefndar: Af hverju fóru 125 milljónirnar sem áttu að fara til Landspítalans ekki í gegn þótt það væri tvöföld ríkisstjórnarsamþykkt á bak við? Hér er ekki um neitt annað að ræða en að ný ríkisstjórn er að taka nýjar ákvarðanir. Hún hefur rétt til þess, og það er full ástæða til að segja það, en hún á ekki að fela sig á bak við fyrrverandi ríkisstjórn hvað það varðar.