143. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2014.

veðurfarsrannsóknir og markáætlun.

180. mál
[16:57]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni nokkuð áhugaverða fyrirspurn um mikilvægar rannsóknir.

Í nóvember síðastliðnum samþykkti Vísinda- og tækniráð nýja stefnu ársins 2016. Meðal verkefna samkvæmt stefnunni er að skilgreina sérstaklega þau viðfangsefni sem krefjast langtímafjármögnunar og leita leiða til að tryggja fjármögnun þeirra og hagnýtingu til rannsókna og nýsköpunar. Þau rannsóknarverkefni sem hér er spurt um sérstaklega og lúta að vöktun og mælingum á íslensku lífríki eru dæmi um verkefni sem krefjast langtímafjármögnunar. Slík verkefni þarf, eins og áður segir, að skilgreina vel og forgangsraða í samræmi við stefnu Vísinda- og tækniráðs.

Á vegum forsætisráðuneytisins vinnur nú starfshópur að aðgerðaáætlun á grundvelli hinnar nýju stefnu Vísinda- og tækniráðs. Sú vinna er í fullum gangi og verða drög að aðgerðaáætluninni kynnt fyrir ráðinu á næsta fundi sem haldinn verður í mars. Íslenskir vísindamenn vinna að margvíslegum rannsóknarverkefnum sem beinast að loftslagsbreytingum, sem sagt verkefnum innan rammaáætlunar ESB, og ekki síst verkefni sem forsætisráðherrar Norðurlandanna komu af stað og nefnist Toppforskningsinitiativet — TFI, og beinist að loftslagsbreytingum, umhverfi og orkumálum þar sem t.d. Veðurstofan og Háskóli Íslands eru virkir þátttakendur. Þá hafa íslenskir vísindamenn að auki verið í samstarfi við vísindamenn í Bandaríkjunum og Kína á þessu sviði.

Rannsóknir á loftslagsbreytingum, sýrustigi sjávar og öðrum veðurtengdum þáttum, eru að mínu mati í flokki mikilvægra rannsóknarverkefna sem brýnt er að huga að. Hvert vægi og forgangur slíkra rannsóknarverkefna á að vera gagnvart öðrum mikilvægum verkefnum er hins vegar sérstakt úrlausnarefni sem leysa þarf úr á hverjum tíma með hliðsjón af því takmarkaða fjármagni sem er til reiðu, en þessi vinna stendur sem sagt yfir í samræmi við þá yfirferð sem Toppforskningsinitiativet hefur lagt í.