143. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2014.

veðurfarsrannsóknir og markáætlun.

180. mál
[16:59]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Hér hefur ekki verið mikið fjármagn í samkeppnissjóðum á sviði vísindarannsókna og við höfum rætt það talsvert oft í þessum sal. Það var svo aukið og svo dregið úr því, ég ætla ekkert í þá umræðu hér og nú. En ég þykist vita að það sé nokkur einhugur almennt um að efla eigi þátt samkeppnissjóða við fjármögnun vísindarannsókna. Eins og hæstv. forsætisráðherra kom réttilega inn á gilda önnur lögmál um langtímaverkefni eins og hér um ræðir sem skila ekki endilega árangri strax. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvert mat hans sé á því. Telur hann koma til greina að stjórnvöld í samráði við rannsóknarsamfélagið og í samráði við Alþingi skilgreini einhver sérstök þjóðhagslega mikilvæg verkefni á sviði rannsókna sem sé annaðhvort ástæða til að leggja áherslu á í markáætlun eða kanna eitthvert nýtt fyrirkomulag?

Ég nefndi áðan fyrirkomulag í nágrannalöndum okkar. Ég get nefnt Noreg sem dæmi þar sem sett hafa verið á laggirnar tíu öndvegissetur í rannsóknum sem stjórnvöld meta þjóðhagslega mikilvæg. Þau eru að vísu á milli ólíkra fræðasviða og við vitum að Norðmenn hafa haft úr talsverðu fjármagni að spila, þannig að ekki þarf endilega að horfa til tíu setra. En ég nefni þetta í ljósi þess hversu mikilvægt það hlýtur að vera fyrir okkur sem þjóð að geta tekið ákvarðanir í framtíðinni sem byggjast á rannsóknum og gögnum og að geta tekið mjög virkan þátt í þeirri umræðu sem er fram undan á alþjóðavettvangi.

Við ræðum hér til að mynda talsvert um norðurslóðamál. Þetta tengist auðvitað mjög þeim málum. Til að mynda bara það að þegar skipaleiðin opnast og við sjáum fram á aukna skipaflutninga eftir þeirri leið sem nú er verið að horfa til, má líka búast við aukinni staðbundinni mengun á (Forseti hringir.) norðurslóðum. Þá skiptir mjög miklu máli að mínu viti að Ísland gangi fram fyrir skjöldu sem mjög virkur aðili í öllum (Forseti hringir.) þeim umræðum og byggi sjónarmið sín á rannsóknum.