143. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2014.

vernd afhjúpenda.

264. mál
[17:04]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Eins og hæstv. forsætisráðherra þekkir var samþykkt þingsályktunartillaga á Alþingi árið 2010 um vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis. Í kjölfarið var settur á laggirnar starfshópur sem hefur staðið fyrir samvinnu ólíkra ráðuneyta og fleiri aðila til að skoða lagaumhverfið á Íslandi þannig að unnt sé að tryggja sem best vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis.

Hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hefur raunar haldið utan um þennan starfshóp en mig langar að inna hæstv. forsætisráðherra sérstaklega eftir tvennu. Ef mig rekur rétt minni til er á þingmálaskrá hæstv. ráðherra frumvarp um breytingu á stjórnsýslulögum. Hvernig sér þá hæstv. forsætisráðherra fyrir sér að sú breyting verði sem lýtur að þagnarskyldu opinberra starfsmanna? Það hefur verið til umræðu að þegar opinberir starfsmenn komast til að mynda að upplýsingum um að einhver hafi gerst brotlegur í starfi eða vanrækt störf sín gildi ekki um það nein þagnarskylda, enginn trúnaður eigi að ríkja í slíkum upplýsingum og eðlilegt sé að upplýsa slíkt.

Annað sem hefur heyrt undir hæstv. forsætisráðherra er regluverk um vernd slíkra afhjúpenda. Eitt er að aflétta þagnarskyldu um tiltekin mál, annað hvernig farið er með þá sem á ensku hafa verið kallaðir „whistle blowers“ og við köllum afhjúpendur. Það liggur fyrir frumvarp, ef ég man rétt, frá hv. þm. Róberti Marshall um slíka vernd, en þetta var eitt af því sem starfshópurinn var að fást við og heyrir að ríku leyti undir hæstv. forsætisráðherra, a.m.k. í því sem lýtur að hinu opinbera.

Það var haldið málþing um vernd afhjúpenda í nóvember fyrir rúmu ári þar sem dregin voru fram ólík sjónarmið og hvernig þetta varðar bæði hið opinbera og einkamarkaðinn. Að sjálfsögðu erum við með afhjúpendur sem geta upplýst um hluti í einkafyrirtækjum. Þar var meðal annars bent á að það flækir málin að hér er ekki um einhverja eina löggjöf að ræða sem er hægt að fara inn í og breyta, heldur þyrfti að horfa á málið sérstaklega út frá vernd afhjúpenda á ólíkum sviðum samfélagsins.

Mig langar að inna hæstv. forsætisráðherra eftir þessari vinnu líka. Hvernig gengur hún? Telur hann jafnvel mögulegt að skipta henni eitthvað upp af því að málið er flókið og fara í að skoða sérstaklega afhjúpendur innan hins opinbera áður en horft er á heildina alla? Einhverjir hafa líka varpað fram þeirri hugmynd að réttast væri að umboðsmaður Alþingis hefði þar hlutverki að gegna, þ.e. einfaldast væri (Forseti hringir.) að fela honum framkvæmd laga um vernd afhjúpenda. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra bæði hvernig þessi vinna gengur (Forseti hringir.) og um afstöðu hans til verndar afhjúpenda.