143. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2014.

gagnagrunnur á heilbrigðissviði.

173. mál
[17:23]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta voru ótal spurningar til viðbótar þeim spurningum sem hv. þingmaður lagði fram skriflega, en ég skal reyna að fara yfir þær eins og mér er unnt á þeim knappa tíma sem til ráðstöfunar er.

Ég tel að því eftirliti sem hv. þingmaður spyr um sé sinnt af viðkomandi stofnunum. Við höfum embætti landlæknis, við höfum vísindasiðanefnd, við höfum Persónuvernd, svo höfum við siðanefndir á hverri heilbrigðisstofnun. Ég hef ekki upplýsingar um það hvernig þessu eftirliti er háttað en þetta er sá lagarammi sem um þetta mál gildir og ég vænti þess að þeir einstaklingar sem bera skyldur og ábyrgð í þeim efnum sinni þeim verkum sínum eins vel og þeim er unnt.

Varðandi tekjustreymið út af þessu og hvernig samstarfi Landspítalans og Íslenskrar erfðagreiningar er háttað þekki ég það ekki í neinum smáatriðum. Ég veit að þar eru samskipti á milli og við höfum nýlega ræðst við, ég og nýr forstjóri Landspítalans, vegna þessara mála. Ég vil í þessari umræðu leggja áherslu á þá skoðun mína að ég tel gríðarleg tækifæri felast í starfsemi á þessu sviði sem byggð hefur verið upp af Íslenskri erfðagreiningu og tel raunar ómetanlegt fyrir fræðasamfélag hjá 320 þúsund manna þjóð að eiga þess kost að nýta þetta fyrirtæki og getu þess til góðra verka. Ég tel að það hafi sýnt sig og sannað á undanförnum árum, í samstarfi Landspítalans og Íslenskrar erfðagreiningar, að þarna eru mikil verðmæti fólgin sem ég tel að við eigum að nýta enn betur en gert hefur verið. Ég geri mér um leið grein fyrir hugsanlegum annmörkum á slíku samstarfi sem þarna er, en ég treysti því að báðir aðilar máls virði siðleg mörk í þeim efnum.