143. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2014.

Hús íslenskra fræða.

174. mál
[17:25]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Fyrirspurnin hefði kannski betur heitið Gröf íslenskra fræða því að undir því nafni gengur húsgrunnurinn úti á Melum sem ekkert bólar á að eigi að framkvæma neitt í eftir að hér tók við ríkisstjórn sem telur sér sérstaklega til tekna að vilja hlúa að íslenskri þjóðmenningu. Það er erfitt að átta sig á því hvað er íslensk þjóðmenning ef ekki íslensk fræði. Það er kannski erfitt að sjá nokkurn dýrgrip íslenskrar þjóðmenningar sem hærra ber en safn okkar af handritum okkar fornu sagna, sem við börðumst fyrir að fá úr hendi Dana og þeir af óvenjulegum höfðingsskap færðu okkur til varðveislu en eru nú hvergi til sýnis vegna þess að Íslendingar rækta þjóðmenningu sína ekki betur en svo að helsti arfurinn, handritin sjálf eru ekki til almennrar sýningar þar sem ekki hefur verið búin almennileg aðstaða til þess.

Þess vegna spyr ég hæstv. menntamálaráðherra Illuga Gunnarsson um þann kostnað sem þegar hefur verið lagður í við að undirbúa þá framkvæmd sem nú virðist hafa verið slegin af, um það hvað mun síðan kosta að fylla aftur upp í holuna sem búið er að gera. Ef menn ætla ekki að ráðast í að byggja húsið er nokkuð augljóst að ganga verður frá þeim vegsummerkjum sem þegar eru orðin um að þarna eigi að byggja hús.

Í þriðja lagi, vegna þess að það var skoðað sérstaklega í tengslum við Héðinsfjarðargöngin, hvað gera megi ráð fyrir að þurfi að borga í bætur til lægstbjóðanda, því að verkið hafði þegar verið boðið út, þannig að við áttum okkur á því hversu mikill kostnaður getur hlotist af því að ráðast ekki í framkvæmdina.

Síðan í fjórða lagi hvort það gæti orðið til þess að liðka fyrir málinu ef Háskóli Íslands væri í færum til að leggja sinn hlut eitthvað hraðar fram í framkvæmdinni þannig að ríkisstjórnin þyrfti ekki að koma inn með sín framlög fyrr en á seinni stigum verksins en upphaflega var gert ráð fyrir. Ef háskólinn tekur skref til að hrinda þessu af stokkunum og leggur út fyrstu fjárhæðirnar, getur það hjálpað ríkisstjórninni að lyfta því grettistaki (Forseti hringir.) í þjóðmenningu sem þarf að gera til að hýsa íslensku handritin sómasamlega?