143. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2014.

Hús íslenskra fræða.

174. mál
[17:33]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og fagna því að hann áréttar að af hans hálfu sé ekki um það að ræða að hætt sé við verkið heldur aðeins frestun.

Ég vek athygli á því að það kostar samkvæmt svörum ráðherrans einhvers staðar á bilinu 700 til 1.000 millj. kr. að byggja ekki Hús íslenskra fræða. Það kostar hins vegar um 3 milljarða að byggja það. Með því að byggja það búum við ramma þeim fimm menningarstofnunum sem við sameinuðum fyrir rétt að verða átta árum síðan. Þá fylgdi það fyrirheit að með þeirri sameiningu mundi þessi aðstaða fylgja með öllu því sem hún hefur upp á að bjóða. Þá sköpum við líka tækifæri til þess að sýna helstu menningarverðmætum sem okkur hafa verið falin, íslensku handritunum, þá sæmd og veita þeim þá aðstöðu sem boðleg sé til að geta haft á þeim sýningar fyrir almenning og fyrir erlenda gesti okkar.

Það er satt að segja að verða býsna langur tími, þessi átta ár. Ég vil nota tækifærið og brýna ráðherrann og hvetja til góðra verka í þessu, sem mér heyrist hann hafa metnað til. Ég vek athygli á því að það eru tækifæri í því að Háskóli Íslands komi fyrr inn með sinn hlut þannig að ríkissjóður, einmitt nú þegar verið er að ná hallalausum fjárlögum, þurfi ekki að leggja af mörkum eins og áætlað hafði verið en komi þá inn með þeim mun myndarlegri hætti á síðari stigum og næstu missirum.