143. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2014.

fyrirhuguð hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu.

181. mál
[17:37]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég hygg að ekki sé um það deilt að ein af herfilegustu hagstjórnarmistökum kjörtímabilsins 2003–2007 voru þau þegar virðisaukaskattur í lægra þrepi var lækkaður, í miðri þenslubólunni, úr 14% í 7%, eða helmingaður. Og ekki var það aðeins að skattur á mat og menningu lækkaði sem þessu nemur heldur fylgdi með niður m.a. skattur á hótelgistingu og þjónustu veitingastaða. Mjög var um það deilt í hvaða mæli neytendur nytu góðs af þessum breytingum en um hitt er ekki hægt að deila að ríkið sat og situr enn uppi með umtalsvert tekjutap auk þess sem bilið milli lægra þreps og efra þreps, 24,5 eða nú 25,5% og 7% varð auðvitað mjög breitt, sem er óhagstætt í öllu skattalegu tilliti.

Endurskoðun á þessu fyrirkomulagi kom oftar en einu sinni til skoðunar á síðasta kjörtímabili og þá sem liður í óumflýjanlegri tekjuöflun til að koma í veg fyrir að ríkissjóður færi á hausinn. Ferðaþjónustan er í örum vexti og býr við hagstæð samkeppnisskilyrði sökum lágs gengis. Engu að síður og í samhengi við þetta liggur fyrir að skatttekjur af hverjum ferðamanni hafa farið verulega lækkandi undanfarin ár, samanber nýlegt svar fjármálaráðherra við fyrirspurn hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur þar um.

Það er á árinu 2012 sem sú niðurstaða verður að fara aftur með gistingu upp í 14% en ekki fullt efra þrep, 25,5%, sem er sama hlutfall og ferðaþjónustan bar fram til 1. mars 2007 og var þó gengi krónunnar miklu sterkara þá en nú. Alþingi gekk sömuleiðis þannig endanlega frá málinu að greinin hafði því sem næst ár til að undirbúa sig undir þessa breytingu, enda höfðu rök ferðaþjónustunnar verið þau að óumflýjanlegt væri að hafa nokkurn aðdraganda að svona breytingu til að undirbúa og kynna nýjar gjaldskrár o.s.frv.

Það er svo fyrst í júnímánuði síðastliðnum sem ný ríkisstjórn ákveður að hverfa frá þessari skattheimtu og þá eru um tveir mánuðir þangað til breytingin á að taka gildi. Í samræmi við þau rök greinarinnar að hún þyrfti langan tíma til að undirbúa og kynna breyttar gjaldskrár hefur auðvitað vaknað þessi spurning: Var ferðaþjónustan í einhverjum mæli búin að því? Ef hún hefði verið sjálfri sér samkvæm hefði mátt ætla að búið hefði verið að undirbúa í verulegum mæli og jafnvel taka í gildi nýjar gjaldskrár til að mæta væntanlegri hækkun.

Ég hef því leyft mér að spyrja hæstv. ráðherra hvort kannað hafi verið í hve ríkum mæli hótel og aðrir gististaðir hafi þegar tekið fyrirhugaða hækkun virðisaukaskattsins inn í gjaldskrá áður en fallið var frá innheimtunni. Í öðru lagi, ef um slíkt var að ræða, hvort fylgst hafi verið með því hvort menn hafi lækkað gjaldskrárnar á nýjan leik eftir að fallið var frá ákvörðun um hækkun.