143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Forseti. Í fréttum gærdagsins kom fram ein af mörgum hörmulegum birtingarmyndum hins svokallaða dópstríðs. Katharine Rohocorea er ung kona frá Spáni sem situr nú í fangelsi á Íslandi fyrir fíkniefnasmygl. Tveir menn á Spáni, annar kunningi hennar, kröfðust þess að hún kæmi fíkniefnum fyrir í leggöngum sínum í þeim tilgangi að flytja þau milli landa. Þau komust ekki fyrir og tók annar þeirra hana þá með valdi og settist klofvega ofan á hana og hinn tróð tveimur pakkningum inn í leggöngin. Þeir óku henni síðan heim til sín þar sem hún bjó með móður sinni og sögðu henni að pakka niður.

Eftir það óku þeir henni á flugvöllinn og fylgdu henni þar til hún var komin í gegnum öryggishliðið. Þeir hótuðu síðan að gera móður hennar og systur mein ef hún gerði ekki eins og henni væri sagt. Annar maður átti að taka við henni á Íslandi en hún var stöðvuð í græna hliðinu við komuna til Íslands.

Nú vitna ég í dómsorð, með leyfi forseta:

„Við líkamsleit tollvarða fannst ein pakkning af meintu kókaíni í nærbuxum hennar sem vigtaði 108 grömm. Ákærða gat ekki losað sig við hina pakkninguna og var hún flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja en þar var tekin ákvörðun um að flytja hana á kvennadeild Landspítalans þar sem hún var svæfð og fíkniefnin sótt af lækni.“

Seinna segir í dómnum, með leyfi forseta:

„Játning ákærðu er í samræmi við önnur gögn málsins og framburður hennar um að hún hafi verið neydd til ferðarinnar er trúverðugur. Verður ákærða sakfelld fyrir þá háttsemi sem lýst er í ákæru en brot hennar er í ákæru rétt fært til refsiákvæða. Ákærða hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar.“

Virðulegi forseti. Þetta er birtingarmynd refsiþorstans sem einkennir viðhorf yfirvalda til fíkniefnamála.

Þessi dómur er ekki vegna geðþótta dómarans heldur vegna meðvitaðrar ákvörðunar löggjafarvaldsins. Katharine átti skilið hjálp en það mátti ekki einu sinni láta hana í friði. Nei, henni þurfti að refsa.

Dæmi enginn kvalara hennar nema löggjöfina með.