143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þann 23. janúar sl. ritaði Víglundur Þorsteinsson bréf til forseta Alþingis. Er það mjög eftirtektarvert og eru þungar ásakanir bornar fram í þessu bréfi en nú er það komið í ferli hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eftir því sem mér skilst. Þar kemur fram að með úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál voru afhentar fundargerðir stýrinefndar stjórnvalda um samninga við erlenda kröfuhafa bankanna árið 2009.

Í bréfinu kemur fram sú skoðun höfundar þessa bréfs að þegar fundargerðirnar séu lesnar í samfellu verði ekki annað ráðið en að frá upphafi hafi ríkisstjórnin haft í huga að afhenda erlendu kröfuhöfunum alla þrjá nýju bankana til að friðþægja þá. Ég tek fram að þetta er skoðun höfundar bréfsins.

Það sem ég ætla hins vegar að fara hér yfir er sá kafli sem höfundur lætur heita: „Landsbankinn sleppur“. Þá vísa ég í bréfið, með leyfi forseta:

„Þegar komið var fram á sumar gafst hún upp á því að láta erlenda kröfuhafa, þ.e. Breta og Hollendinga, eignast Landsbankann vegna þeirra áhugaleysis (Icesave).

Var þá farin sú leið að festa forsendur á milli nýja bankans og þess gamla að gefa út skuldabréfin margræddu …“

Hér er átt við bæði skilyrta skuldabréfið með hlutabréfabónusnum sem við munum eftir og hið óskilyrta; þ.e. ef starfsmenn bankans gætu rukkað íslensk fyrirtæki og fjölskyldur um meira en 90 milljarða mundu starfsmenn eignast hlut í bankanum. Og svo hið óskilyrta sem þáverandi fjármálaráðherra tók upp á tæpa 300 milljarða og setti inn í nýja bankann í erlendum gjaldeyri.

Í þessum fundargerðum virðist koma fram, virðulegi forseti, þessi gjörningur sem við höfum margoft kallað eftir í þinginu. Ég spyr því hv. þm. Steingrím J. Sigfússon: Getur hann staðfest það sem hér kemur fram?