143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Á ég kannski að staðfesta að bæði Víglundur Þorsteinsson og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir séu snillingar? (VigH: Takk fyrir.)

Eitt allra mikilvægasta verkefni ársins 2009 var að koma nýju bönkunum í gang. Það var að ná samningum um uppgjör milli þeirra og gömlu föllnu bankanna og fjármagna síðan nýju bankana með nægjanlegu eigin fé svo að þeir gætu hafist handa um að þjónusta íslenskt efnahagslíf, heimili og fyrirtæki. Án starfshæfs bankakerfis hefði engin endurreisn hafist á Íslandi. Þetta tókst á árinu 2009 og á að sjálfsögðu sinn þátt í því að viðsnúningur varð í hagkerfinu á síðari hluta árs 2010 og hagvöxtur gekk í garð.

Nú vill svo til að Alþingi var gerð grein fyrir þessari viðamiklu aðgerð í ítarlegri skýrslu á fyrri hluta árs 2011, sem ég legg reyndar til að formaður fjárlaganefndar lesi (VigH: Búin að því.)áður en hv. þingmaður bullar meira um þessi mál.

Varðandi samsæriskenningar og ávirðingar Víglundar Þorsteinssonar eru þær auðvitað svoleiðis út úr öllu korti að ég tel að það þurfi alveg sérstakt hugarfar til að lyfta þeim eða skjóta sér á bak við þær til þess að reyna að koma höggi á aðra. Trúa menn því hér á Alþingi Íslendinga að á árinu 2009 hafi nokkrir æðstu embættismenn þriggja ráðuneyta, Seðlabankinn, Fjármálaeftirlitið, Ríkisendurskoðun, Bankasýsla ríkisins, fyrirtækið Landslög, lögfræði- og ráðgjafarfyrirtækið Hawkpoint (VigH: … Landsbankann.) og fleiri myndað eitt víðtækt samsæri gegn hagsmunum landsins? Því er haldið fram í þessari grein. Án nokkurra raka eru þessar ávirðingar bornar á alla þessa aðila í einu lagi.

Ég segi bara, herra forseti: Verði þeim að góðu (Forseti hringir.) sem eru svo illa komnir í sinni pólitík eða í sínum sjálfsréttlætingar- og hatursskrifum að þeir lyfti slíku.