143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

ummæli þingmanns í umræðum um störf þingsins.

[14:07]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég tek undir hvert orð sem þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins sagði hér, hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir. Ég tel þetta mjög ómaklegt og tel að forseti hefði átt að berja í bjöllu undir þessari ræðu.

Fyrir hálfu ári var þetta mál útskýrt hér í þingsal, meira að segja í fullskipuðum þingsal, 63 þingmönnum, og mér finnst það ekki sæma Alþingi Íslendinga að taka upp aftur hálfs árs gamalt mál sem búið var að leiða til lykta.

Ég kom hér upp og baðst afsökunar. Það var ekkert samkomulag gert, sagði það úr þessum ræðustól að um misskilning hefði verið að ræða. Þetta gerði ég í byrjun júlímánaðar fyrir nákvæmlega hálfu ári.

Mér finnst það umhugsunarvert — því að ég held að við setjumst öll hér með frómar óskir og væntingar þegar við komum hingað inn um að skapa hér gagnrýnið, vissulega gagnrýnið, en jákvætt andrúmsloft — að á sama fundi og verið er að tala um stofnun jákvæðs félagsskapar skuli þetta vera hér til umræðu í þingsal.