143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

ummæli þingmanns í umræðum um störf þingsins.

[14:08]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég hef aldrei veist að hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur í þessu máli, sérstaklega borið blak af henni hér í ræðustól Alþingis síðasta sumar.

Vissulega lýsti hún því yfir að þetta samkomulag væri fyrir hendi og auðvitað ætlast maður til þess að stjórnarflokkar standi á bak við yfirlýsingu formanns í nefnd sem þeir hafa sett. Ég gerði skýra grein fyrir því að það væri forsætisráðherra og Framsóknarflokkurinn sem væri að gera hana ómerka orða sinna í ræðustól Alþingis, (Gripið fram í: Þú heldur áfram.) og að það væri ekki á hennar ábyrgð, sannarlega ekki. Það var enginn misskilningur að hér var gert samkomulag. Sigrún Magnúsdóttir gerði skilmerkilega grein fyrir því að hér var gert samkomulag og Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjarnefndar, lýsti því samkomulagi hér í ræðustól Alþingis. Svo formlegt var það samkomulag. Við eigum því að venjast hér að samningar sem formenn þingflokka gera með sér haldi.

Auðvitað er það viðkvæmt og erfitt fyrir formenn þingflokka stjórnarflokkanna að það sé rifjað upp að hér á aftur að reyna að ganga á bak orða sinna, en þegar fólk leggst svo lágt að ætla aftur að gera aðför í þessu (Forseti hringir.) máli um stjórn RÚV verður að rifja það upp. Það verður ekki hjá því komist, hversu jákvæður sem maður vill annars vera.