143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

fjárhagsaðstoð vegna gjaldþrotaskipta.

233. mál
[14:17]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar varðandi frumvarp til laga um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnað vegna gjaldþrotaskipta, en málið var unnið í nefndinni í desember og klárað núna eftir áramótin.

Hér er í grófum dráttum lagt til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem liggja fyrir á sérstöku þingskjali, en við leggjum til nokkrar breytingartillögur.

Með frumvarpinu eru lögð til ný heildarlög um fjárhagsaðstoð til greiðslutryggingar fyrir kostnað vegna gjaldþrotaskipta. Tilgangurinn er að einstaklingar sem eiga í verulegum greiðsluörðugleikum og hafa leitað annarra greiðsluvandaúrræða án árangurs, geti sótt um fjárhagsaðstoð til að standa undir greiðslu tryggingar fyrir skiptakostnað við gjaldþrotaskipti, það verði gert hjá umboðsmanni skuldara. Hér er um að ræða nýtt úrræði á vegum stjórnvalda sem ætlað er að koma til móts við þá sem verst standa. Úrræðið á að geta verið sérstaklega skilvirkt, en samkvæmt 2. mgr. 165. gr. laga um gjaldþrotaskipti kemur fram að fyrningarfrestur krafna er tvö ár frá skiptalokum.

Frumvarpið er hluti af þeim aðgerðapakka sem núverandi ríkisstjórn kynnti til lausnar á skuldavanda heimilanna á síðasta sumarþingi og var samþykkt þingsályktunartillaga forsætisráðherra varðandi það. Hér kemur það mál til atkvæða í þinginu.

Fram kemur í athugasemdum við frumvarpið að eðlilegt hafi þótt að setja sérlög um þetta úrræði í stað þess að fela það inni í annarri löggjöf. Í ljósi þess að umboðsmaður skuldara er með sérfræðiþekkingu í úrvinnslu greiðsluvanda einstaklinga þótti rétt að fela því embætti að taka ákvarðanir um veitingu fjárhagsaðstoðar. Þá var talið að ákvörðunarferlið yrði styttra og einfaldara auk þess sem margir þeirra sem sækja munu um úrræðið eru væntanlega þegar með mál til meðferðar hjá umboðsmanni skuldara.

Nefndin leggur til að lögin verði endurskoðuð fyrir árslok 2014 og þá verði metið hvort þetta úrræði hafi skilað tilætluðum árangri og hvort ástæða sé til þess að það lifi áfram.

Skilyrði fjárhagsaðstoðar var það atriði sem við ræddum mest í nefndinni. Í 4. gr. frumvarpsins á að sækja um hana til umboðsmanns skuldara en ef umsókn er synjað er heimilt að kæra þá synjun til ráðherra.

Í 3. mgr. frumvarpsins koma fram eftirfarandi skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð: Í fyrsta lagi er gerður áskilnaður um að viðkomandi sé ógreiðslufær og ógjaldfær, en hvort tveggja eru almenn skilyrði fyrir gjaldþrotaskiptum. Í öðru lagi er gert að skilyrði að umsækjandi geti ekki staðið skil á tryggingu fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta og í þriðja lagi er það skilyrði að önnur greiðsluvandaúrræði hafi verið reynd eða að umboðsmaður skuldara meti það svo að önnur greiðsluvandaúrræði dugi ekki til og séu ekki til þess fallin að leysa vandann. Síðastnefnda skilyrðið vísar til þess að hér er í raun um ákveðið neyðarúrræði að ræða.

Fram komu ýmsar athugasemdir fyrir nefndinni. Þær voru aðallega þess efnis að væru ekki gerðar sambærilegar kröfur í frumvarpinu um háttsemi skuldara og gert er í lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010, en í lokamálsgrein 3. gr. frumvarpsins kemur fram að fjárhagsaðstoð verði ekki veitt hafi greiðsluaðlögunarumleitanir verið felldar. Við gerum þess vegna ákveðnar breytingar sem koma fram í breytingartillögum nefndarinnar þar sem við horfum til 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga. Í þeirri grein er að finna aðstæður sem geta komið í veg fyrir greiðsluaðlögun og að heimilað verði að einstaklingur fari í greiðsluaðlögun. Þar er að meginstofni vísað til háttsemi skuldara áður en umsókn um greiðsluaðlögun er lögð fram.

Nefndin taldi eðlilegt að líta mest til sömu atriða, enda þótti ekki eðlilegt að skuldari gæti fengið fjárhagsaðstoð til greiðslu trygginga vegna gjaldþrotaskipta hafi hann hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða ef umsókn hans um greiðsluaðlögun hans var synjað á grundvelli 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga. Því leggjum við til breytingu á 3. gr. frumvarpsins þannig að í 2. mgr. ákvæðisins verði tekið upp ákvæði 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, sem eðlilegt er að líta til varðandi háttsemi skuldara sem mundi ella verða til að umsókn um greiðsluaðlögun yrði synjað. Það er viðamesta breytingin sem nefndin leggur til.

En hér koma fram aðrar aðrar breytingar. Í 4. gr. frumvarpsins er fjallað um umsókn umsækjenda og hvaða gögn skulu fylgja henni. Við teljum rétt að gera þá breytingu að í stað orðanna „síðasta skattframtali hans“ við 4. gr. komi: síðustu fjögur skattframtöl hans. Jafnframt telur nefndin rétt að gera þá breytingu á 8. gr. frumvarpsins að ráðherra verði skylt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna þar sem m.a. verði ítarlegri reglur um form umsóknar, þ.e. hvað þarf að koma fram í umsókninni, og síðan um málsmeðferð hjá umboðsmanni skuldara, hvernig embættið mun halda utan um þessar umsóknir.

Þá taldi nefndin rétt að gera breytingu á heiti 5. gr. frumvarpsins til að skýra enn betur hvað þar er á ferðinni og ákveða heiti, ákvörðun um veitingu fjárhagsaðstoðar.

Þá töldum við rétt að breyta gildistökuákvæðinu þannig að í stað dagsetningarinnar „1. janúar“ í 9. gr. komi: 1. febrúar. Það er gert af lagatæknilegum ástæðum.

Þá leggjum við að lokum til að breytingu á lögum um umboðsmann skuldara og áðurnefnda breytingu um endurskoðun laganna fyrir árslok 2014. En við gerum ráð fyrir því að við þau tímamörk liggi fyrir upplýsingar um hvort þetta úrræði hentar og hvernig það hefur gefist. Við teljum að rétt sé að horfa til þeirra tímamarka sem löggjafinn ákvað þegar við gerðum breytingar á gjaldþrotalögunum varðandi fyrningarfresti þar og að þetta haldi þá saman við þá vinnu sem fara þarf í núna á næstu mánuðum til að skoða hvernig sú breyting á lögunum hefur gefist.

Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson gerir fyrirvara við nefndarálitið sem lýtur að því að ráðherra setji reglugerð um framkvæmd laganna um málsmeðferð umboðsmanns skuldara og geti á þann hátt fyrirskipað hvernig ákvæði 6. og 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010, skuli túlkuð eins og þau koma fram í lögum þessum.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef gert grein fyrir. Sú sem hér stendur var fjarverandi við afgreiðslu nefndarinnar en undir álitið skrifa hv. þingmenn Líneik Anna Sævarsdóttir, Oddgeir Ágúst Ottesen, Guðlaug Elísabet Finnsdóttir, Elsa Lára Arnardóttir, Guðbjartur Hannesson, Helgi Hrafn Gunnarsson, með fyrirvara, Haraldur Einarsson, Svandís Svavarsdóttir og Vilhjálmur Árnason.