143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

fjárhagsaðstoð vegna gjaldþrotaskipta.

233. mál
[14:27]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér láðist í ræðu minni að þakka þingmanninum Valgerði Bjarnadóttur fyrir hvatningu hennar í þessu máli, en við áttum orðastað um það, undir liðnum störf þingsins, fyrr á þessu þingi.

Jú, það er þannig að við erum auðvitað orðin í þröng með tíma. Engu að síður gerum við ráð fyrir að fresta ekki gildistökuákvæðinu lengur en til 1. febrúar þótt kannski væri eðlilegt, úr því að við erum komin þetta áleiðis inn í janúarmánuð, að gera það. Það er vegna þess að undirbúningur að reglugerðarsmíðinni er langt kominn og ég vonast til þess að menn hraði þeirri vinnu allri þannig að það taki eins skamman tíma og hægt er.

Þegar maður er að vinna nýmæli vandar maður sig eins og maður getur. Það kom fram hér í desember, þegar nefndin taldi að sér bæri að reyna að klára þetta mál fyrir áramót, að það væri ekki nauðsynlegt upp á dagsetningar heldur var talið óhætt að skoða málið örlítið betur og klára það þá núna. Auðvitað hefði verið gott að klára það fyrr en við erum einfaldlega í þessum sporum núna og við teljum að við séum ekki að þrengja skilyrðin það mikið að þetta nýtist ekki neinum. Annars væri þetta harla tilgangslaust.

Við teljum að þetta nýtist þeim sem á þurfa að halda, við unnum þessar breytingar í samráði við ráðuneytið og jafnframt fengum við umboðsmann skuldara á fund nefndarinnar. Menn telja að þetta sé góð nálgun og muni skila tilætluðum árangri en auðvitað er þessi löggjöf, eins og öll önnur mannanna verk, nokkuð sem við þurfum að fylgjast með og kanna hvernig framkvæmdin verður, enda ætlum við okkur að gera það miðað við endurskoðunarákvæðin í frumvarpinu.