143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

fjárhagsaðstoð vegna gjaldþrotaskipta.

233. mál
[14:29]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er mjög gott að þetta frumvarp sé komið fram, þetta aðstoðar þá sem sjá sér þann kost vænstan að fara í gjaldþrot, klára þannig sín mál. Eins og lögin standa í dag þýðir það að fólk er í tvö ár inni í þeim pakka og svo er það laust allra mála og getur farið að hefja sitt líf upp á nýtt.

Þetta frumvarp þýðir að fólk sem getur ekki nýtt sér það tækifæri, vegna þess að það getur ekki lagt fram þær 250 þús. kr. sem það kostar að greiða fyrir gjaldþrotaskiptin, fái aðstoð við það. Við munum styðja þetta en setja fyrirvara sem lýtur að því að ráðherra setji reglugerð um framkvæmd laganna, eins og kemur fram, og breytingartillaga með þessu frumvarpi breytir þeim texta úr: „þegar ráðherra getur sett“ yfir í: ráðherra setur — þannig að ráðherra setji reglugerð um framkvæmd laganna, um málsmeðferð umboðsmanns skuldara og geti á þann hátt fyrirskipað hvernig ákvæði 6. og 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga skuli túlkuð. Þetta þýðir að í meðförum nefndarinnar var tekin inn 6. gr. og 12. gr. úr lögum um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara. Þau ákvæði fjalla um það hvaða skilyrði þeir sem eru í greiðsluaðlöguninni þurfa að uppfylla. Þau skilyrði eru tekin inn í þessi lög þannig að aðilar verða að uppfylla þau skilyrði, líka ef þeir ætla að fá þessa aðstoð við að fara í gjaldþrot.

Það er mjög mikilvægt, af því að það hefur komið fram gagnrýni á það hvernig þessi skilyrði hafi verið túlkuð, að ráðherra geti gripið inn í. Það er inni í lögunum að það er hægt að kæra til ráðherra. Nú langar mig að spyrja hv. þingmann hvað ráðherra raunverulega geti gert. Hversu langt getur hún seilst? (Forseti hringir.) Hefur hún ekki endanlegt ákvörðunarvald ef fólki líst ekki á niðurstöðu umboðsmanns skuldara í þessu máli?