143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

fjárhagsaðstoð vegna gjaldþrotaskipta.

233. mál
[14:35]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Umboðsmanni skuldara hafa verið falin þessi verkefni, eins og ég sagði áðan, með lögunum um greiðsluaðlögun og ef þingheimi þykja þau lög ekki sanngjörn, ekki rétt eða gefast illa í framkvæmd þarf auðvitað að endurskoða það. Ég er reyndar ekki á þeirri skoðun en get ekki tjáð mig um málefni einstaklinga. Það er þannig að ákvarðanir varðandi þessa fjárhagsaðstoð verða kæranlegar miðað við 6. gr. Það fer þá einfaldlega eftir ákvæðum stjórnsýslulaga en matið hjá umboðsmanni skuldara, miðað við greiðsluaðlögunarferlið allt saman, byggir á ákveðnum gögnum og það eru teknar ákvarðanir á upplýstum forsendum.

Þegar við erum að ræða þau mál og tala um einstök tilfelli er erfitt að átta sig á þeim án þess að vera með þau gögn fyrir framan sig og það er ekki hlutverk okkar hér að fara yfir þau. Við höfum falið ákveðinni stofnun það og ég treysti þeirri stofnun til að gera sitt besta til að leysa úr þessum flóknu viðfangsefnum.