143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

fjárhagsaðstoð vegna gjaldþrotaskipta.

233. mál
[14:37]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér mælti hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir fyrir nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar um fjárhagsaðstoð vegna gjaldþrotaskipta. Ég fagnaði því mjög þegar hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra Eygló Harðardóttir talaði fyrir frumvarpinu nú í nóvember og desember, ég fagna því að málið sé nú komið fram. Mikil vinna fór fram í allsherjar- og menntamálanefnd um frumvarpið og búið er að taka marga snúninga og umræðu um þetta mikilvæga mál.

Ég tel löngu tímabært að þetta sé lagt fram því að við höfum öll sömul horft upp á einstaklinga eða jafnvel fjölskyldur sem ekki hafa átt neina aðra leið færa út úr fjárhagsörðugleikum sínum en að fara í gjaldþrot. Það fólk hefur ekki haft efni á því að borga skiptakostnaðinn, það hefur í raun verið gjaldþrota án þess að hafa farið í gjaldþrot þar sem vantað hefur peninga til að greiða skiptakostnaðinn. Á meðan sú staða er uppi er mikill þrýstingur frá kröfuhöfum skuldanna um að viðkomandi standi skil á skuldbindingum sínum. Auðvitað á að standa skil á skuldbindingum sínum ef kostur er og reyna á að semja um þær ef einhver möguleiki er á til að geta bjargað málunum, ég held ekki neinu öðru fram hér, alla vega á meðan um er að ræða lögmæt lán. Ef þetta eru ólögmæt lán sem dæmt hefur verið um í dómstólum þá er það auðvitað bara réttlætismál að einstaklingar fái samið upp á nýtt í sínum málum.

Þegar sá sem skuldar getur ekki greitt og nær ekki endum saman þá bætist alltaf við skuldirnar. Farið er í innheimtuferli sem hefur í för með sér stóraukinn kostnað og gerir stöðuna alltaf erfiðari og erfiðari þannig að stundum er enginn annar möguleiki en gjaldþrot. Þegar erfitt hefur verið að ná endum saman á meðan kröfurnar eru bara strípaðar venjulegar kröfur þá lítur dæmið þannig út að um leið og innheimtukostnaður er kominn ofan á kröfurnar þá er allt mun erfiðara. Það segir sig sjálft.

Vissulega er alltaf erfitt að horfa á eftir þeim sem fara í þrot, það er mín skoðun. Ég tel að þetta séu engum auðveld skref og mér finnst mikilvægt að þeir sem fara þessa leið og uppfylla skilmála umboðsmanns skuldara um fjárhagsaðstoð vegna gjaldþrotaskipta geri sér fulla grein fyrir hvað það þýðir fyrir viðkomandi að fara í gjaldþrot.

Ég verð að koma þessu að vegna þess að stundum heyrir maður hjá fólki að það sé langbest að láta þetta fara í þrot. En fólk verður samt sem áður að gera sér grein fyrir því hvað það þýðir og hvaða áhrif það hefur á fjárræði þeirra. Mikilvægt er að upplýst ákvörðun sé tekin um þessi mál og að munurinn á t.d. greiðsluaðlögun og gjaldþroti sé fólki ljós. Ég held að það gæti verið til bóta að umboðsmaður skuldara gæfi út bækling eða upplýsingakort þar sem gerð væri grein fyrir því hvað þetta þýðir og hver munurinn á þessum leiðum er þannig að fólk geti tekið upplýsta ákvörðun. Það er gott fyrir okkur að taka upplýsta ákvörðun í því sem við erum að fást við í daglegu lífi.

En eins og ég sagði fyrr í ræðunni þá er alltaf ákveðinn hópur sem hefur enga aðra möguleika en gjaldþrot, það er það besta í stöðunni þrátt fyrir að það séu erfið skref að fara í það. Þess vegna er nauðsynlegt að mínu mati og okkar í allsherjar- og menntamálanefnd að þetta frumvarp komist í gegn fyrir þá sem þess þurfa. Ég held að það sé líka nauðsynlegt í því ljósi að við verðum að horfa til framtíðar til að fólk geti byrjað aftur á nýjum grunni og þeir sem hafa enga aðra möguleika geti klárað málin. Við horfum til framtíðar og í því samhengi verður að huga að neytendavernd og fleiru.

Ég er mjög hlynnt því að umboðsmaður skuldara sjái um meðferð þessara mála vegna þess að hann þekkir vinnslu fjárhagsörðugleikamála vel. Komið hefur fram að þessi leið muni verða skilvirk og að ekki þurfi að bíða lengi eftir því að fá svör um hvort maður eigi rétt á aðstoð eða ekki. Einnig er mjög gott að fólk geti leitað til ráðuneytisins ef það er ósátt við niðurstöðurnar. Ég er mjög hlynnt því að við höfum víkkað út rammann örlítið vegna þess að við erum með ákveðinn hóp af fólki sem ég tel að við þurfum að hreinsa aðeins upp — maður talar kannski ekki svona um fólk, en það eru ákveðin mál í gangi sem hreinsa þarf upp.

Ég vildi koma því að.