143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

almenn hegningarlög.

109. mál
[15:07]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aftur þakka ég fyrir víðsýni þegar kemur að því að taka málið upp seinna í heildstæðari pakka kannski eða einhverju slíku.

Hv. þingmaður nefnir réttilega að ræða þurfi mörkin. Fyrir mér eru mörkin frekar augljós. Þau eru þar sem tjáningin beinlínis brýtur á einhverjum tilgreindum borgaralegum réttindum annars, svo sem friðhelgi einkalífs, rannsóknarhagsmuni o.fl. Sá sem stendur hér mundi ekki mótmæla þeim lögum sem banna dómurum að setja lögbann á fréttaflutning af tilteknum dómsmálum. Það er til þess að vernda rétt fólks til sanngjarnrar málsmeðferðar.

Ég kannast ekki við réttinn til þess að fólk sé ekki móðgað og ég trúi því ekki að það sé góð hugmynd að fólk hafi slíkan rétt. Þegar kemur að sleggjudómum finnst mér þeir jafn ógeðslegir og hverjum öðrum. En þetta er ekki bara spurning um okkar tiltekna viðhorf heldur réttinn til að hafa viðhorfið og sá réttur er ekki tillitssemi og hann er ekki kominn af umburðarlyndi, heldur er hann kominn til þess að við getum tekist á um málefni með opnum hætti.

Í því sambandi spyr hv. þingmaður hvort sá sem hér stendur telji að þöggun verði að þeim fangelsishótunum í almennum hegningarlögum. Ég get aðeins svarað því þannig: Ég vona ekki. Ég vona að það séu engin þöggunaráhrif, en ég óttast að svo sé. Mér finnst þetta alla vega vera blettur á almennum hegningarlögum. Mér finnst þetta vera blettur á því sem ég mundi ætlast til að væri skilningur fólks í lýðræðissamfélagi að til að takast á við ógeðslegu hugmyndirnar þurfum við að ræða þær, sérstaklega vegna þess að þær eru ógeðslegar. Ég þekki það sérstaklega úr umræðunni um trúarbrögð og samkynhneigð og álíka stór, alvöru, erfið, oft og tíðum ljót málefni þar sem fólk er með viðbjóðslegar skoðanir. Ég ætlaði að vitna í Biblíuna en ég ætla að sleppa því af tillitssemi við kristnara fólkið í þessum ágæta sal, en af nógu er að taka þar. Það er ekki gaman að vera samkynhneigður í Gamla testamentinu eða Nýja, ef út í það er farið. En ég get bara svarað spurningunni þannig að ég vona að engin þöggun sé, en (Forseti hringir.) við getum tekið af allan vafa. Ég skil ekki hvers vegna við gerum það ekki sem allra fyrst. Af hverju gerðum við það ekki í gær?