143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

rannsóknir og saksókn í efnahagsbrotamálum.

283. mál
[15:41]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér skýrslu innanríkisráðherra um skipulag og tilhögun rannsókna og saksóknar í efnahagsbrotamálum. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrir að leggja skýrsluna hér fram og hennar innlegg í upphafi umræðunnar.

Glæpir borga sig ekki. Það má segja að hið samfélagslega réttmæti þeirrar skýrslu sem við fjöllum um hér sé að glæpir borgi sig ekki. Það er í raun inntakið og grundvallarútgangspunktur nefndarinnar, þ.e. nefndin telur það grundvallarmarkmið allrar refsivörslu að koma í veg fyrir að glæpir borgi sig, að skipulag eða fyrirkomulag rannsókna og saksóknar í efnahagsbrotamálum stuðli að því að enginn hagnist á efnahagsbrotum og að viðhorf borgaranna sé í samræmi við það að almenningur fái á tilfinninguna að hið almenna viðhorf sé að efnahagsbrot borgi sig ekki. Hv. þm. Guðbjartur Hannesson kom meðal annars inn á þetta viðhorf hér og við höfum rætt hér í þingsal rannsóknir á þessu sviði, að breyta þurfi viðhorfi, og ég get á margan hátt tekið undir það.

Virðulegi forseti. Þegar ég tala um nefndina vitna ég til nefndarinnar sem vann skýrsluna sem hér er til umfjöllunar og hæstv. innanríkisráðherra skipaði 16. janúar 2012 og er í samræmi við bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 82/2011, svo að við höldum því nú til haga í þessari umræðu. Tilgangurinn er að mörgu leyti að nýta betur fjármagn sem fer í slík mál, að vinnan verði skilvirkari og markvissari en til þess átti nefndin meðal annars að taka mið af skipan efnahagsbrotarannsókna á Norðurlöndum. Það er við hæfi að við lítum þangað og meðal annars er talað um það í skýrslunni að lagaleg skilgreining á hugtakinu efnahagsbrot hafi verið að þróast. Segja má að þetta sé 20 ára saga þegar litið er til lagalegrar þróunar. Þannig fór nefndin í ítarlega og víðtæka gagnaöflun erlendis sem hérlendis hjá hinum ýmsu stofnunum og embættum sem með einhverjum hætti koma að málum tengdum efnahagsbrotum.

Ég held að okkur sé öllum ljóst að verkefni nefndarinnar var viðamikið og vandasamt, en nefndin ákvað að afmarka það við að marka verkefni sérstaks saksóknara lagalegan grundvöll í íslenskri löggjöf og framtíðarskipulagi á sviði efnahagsbrotamála, þar með talin brot á skattalögum, þannig að tilhögun og framkvæmd gæti orðið árangursríkari. Ég held að þetta sé kjarni máls. Ýmsar tillögur eru lagðar fram í þessari vönduðu skýrslu, sem ég leyfi mér að segja, og hún mun örugglega nýtast í þá veru. Í þessu samhengi voru ýmsir möguleikar. Breyting á stofnanakerfinu og málsmeðferð var könnuð. Helst þarf að tiltaka mögulega nýja efnahagsbrotastofnun og hins vegar sameiningu og samræmingu og samvinnu milli fyrirliggjandi stofnana með það fyrir augum að styrkja löggjöf og réttarframkvæmd málsmeðferðar á þessu sviði.

Virðulegi forseti. Ég tel mikilvægt að rekja hér þær forsendur sem nefndin gaf sér. Í kafla 11 í skýrslunni er mjög ítarleg umfjöllun um mögulega stofnanagerð. Nefndin tiltók að heildarskipulag lögreglu- og ákæruvalds stæði á krossgötum, og að efnahagsbrot snerust um verulega fjárhagslega hagsmuni í samanburði við aðrar tegundir brota. Þá telur nefndin á grunni vandaðrar og skilvirkrar refsivörslu að fjárhagslegur ávinningur geti orðið verulegur og tiltekur hann.

Virðulegi forseti. Nefndin leggur ríka áherslu á varnaðaráhrif refsinga og að þau eigi að vera mikil þar sem efnahagsbrot eru að jafnaði framin með úthugsuðum og skipulögðum hætti. Reynslan sýnir að náið samspil þarf að vera á milli þeirra sem annast rannsóknir og ákvörðun um útgáfu ákæru í slíkum málum. Það færir gríðarlega sterk rök fyrir því að við sameinum embætti sérstaks saksóknara og skattrannsóknarstjóra, íhugum það alla vega vandlega. Þetta á auðvitað eftir að fá ítarlega umfjöllun í hv. allsherjar- og menntamálanefnd.

Virðulegi forseti. Ég (Forseti hringir.) vil að lokum geta þess að skýrslan er sérlega vönduð og vel unnin. Hún mun án efa nýtast í áframhaldandi umræðu um framtíðarskipan þessara mála.