143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

rannsóknir og saksókn í efnahagsbrotamálum.

283. mál
[15:51]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Í tillögu nefndarinnar segir að nefndin skipti tillögum sínum í tvennt, annars vegar eru tillögur að breyttri stofnanaskipan á sviði rannsókna og ákæruvalds í skattlagningu á efnahagsbrotum og hins vegar eru ýmsar almennar tillögur nefndarinnar sem hún telur til þess fallnar að stuðla að aukinni skilvirkni á þessu sviði.

Varðandi breytta stofnanaskipan segir hér að nefndin telji tvær leiðir færar.

Það sem er mikilvægt í þessu starfi er að það vald og sú reynsla o.s.frv. sem hefur verið til staðar hjá Óla spes, eins og hann er víst oft kallaður, tapist ekki niður, að við byggjum á því og að hin nýja stofnun sem verið er að tala um og kalla eftir að verði stofnuð hafi þær heimildir og fjármagn sem hún þarf. Alltaf þegar á leggja niður stofnanir í samfélaginu set ég spurningarmerki við það sem er í gangi því að oft er pólitík á bak við, ekkert endilega í þessu tilfelli en það er oft. Við þurfum því strax að setja spurningarmerki við þetta og fylgja málinu eftir.

Þegar kemur að stofnuninni er talað um tvær færar leiðir. Fyrri leiðin er að, með leyfi forseta:

„Sett verði á stofn ný rannsókna- og ákærustofnun til að taka við verkefnum embættis sérstaks saksóknara.“ — Taki við þeim bara. — „Peningaþvættisskrifstofa verði færð frá ríkislögreglustjóra til nýrrar stofnunar. Sett verði upp sérstök deild er sinni endurheimtu ólögmæts ávinnings af brotum.“

Síðari leiðin gengur lengra þannig að við það sem fyrri leiðin kallar eftir bætast verkefni skattrannsóknarstjóra og eftir atvikum verkefni er varða málshöfðanir ríkissaksóknara.

Það sem ég mundi vilja kalla eftir er að ef einhver áhugasamur borgari — af því að í flestum málaflokkum er mjög áhugasamt fólk í þessu samfélagi sem hefur mikið til málanna að leggja og hefur skapað sér eigin sérþekkingu á málaflokknum vegna áhuga — að ef það er áhugasamt fólk þarna úti setji það sig í samband við mig, ef það hefur áhuga á að nota verkfærin, þ.e. kortleggja hvert valdsviðið, fjárheimildirnar eru o.s.frv.

Þegar öllu er á botninn hvolft skiptir máli að vita hver staðan er hjá sérstökum saksóknara í dag hvað varðar valdheimildir hans, hvaða fjárframlög hann fær til að sinna verkefnum sínum og hverjar takmarkanirnar eru á starfi hans að öðru leyti. Í framhaldinu þarf að meta hvort sú nýja stofnun sem á að setja á fót hafi sambærilegar, sömu eða jafnvel víðtækari heimildir eða hvort verið sé að búa til nýtt embætti sem á að vera valdaminna og eftirlit að minnka o.s.frv. þegar kemur að þessum málaflokki.

Árið 2008 skrifaði ég bók sem heitir The game of politics. Þeir sem hafa áhuga geta nálgast hana á blogginu mínu jonthorolafsson.blogg.is. Smellið á höfund til hægri og þar er hlekkur á bókina og er öllum er frjálst að dreifa bókinni sín á milli. Á bls. 29 í bókinni er verkfæri til að kortleggja óbeint vald. Ef áhugasamir borgarar í samfélaginu hafa áhuga á því að gera það er þarna eitt verkfæri í boði. Þeir sem hafa áhuga að tala við mig um þetta og setja með mér upp eitthvert verkefni um það geta það. Á sama stað er hlekkur á Facebook-síðuna mína og alþingispóstinn minn, jonthor@althingi.is. Ég vona að einhver þarna úti hafi áhuga á að fylgja málinu eftir til að tryggja að nýja stofnunin sem sett verður á fót hafi þær heimildir, valdheimildir og fjármagn og ekkert sé í vegi fyrir því að hún geti sinnt starfinu sínu vel.