143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

rannsóknir og saksókn í efnahagsbrotamálum.

283. mál
[15:56]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrir að leggja fram þessa skýrslu um rannsóknir og saksókn í efnahagsbrotamálum fyrir þingið og kynna hana fyrir okkur og um leið gefa okkur tækifæri til að koma að þessari endurskoðun. Það er mikilvægt að hafa svona skýrslu í höndunum sem veitir okkur nauðsynlega yfirsýn yfir jafn mikilvægan málaflokk og rannsókn og saksókn efnahagsbrota er. Þetta er stór og víðfeðmur málaflokkur og þau brot sem þarna falla undir eru ein þau stærstu og umfangsmestu sem framin eru. Almenn þekking á málaflokknum er ekki mikil og skilgreining hans hvorki einhlít né einföld. Ég tel okkur núna vera með tækifæri í höndunum til að efla þennan málaflokk og koma honum í gott horf. Það tækifæri á ekki að þurfa að útheimta mikla fjármuni heldur frekar breytt skipulag.

Í kjölfar bankahrunsins var stofnað embætti sérstaks saksóknara til að rannsaka þau mál sem tengdust bankahruninu. Síðar rann efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra inn í það embætti og voru því önnur efnahagsbrot en þau sem tengdust bankahruninu líka hjá sérstökum saksóknara. Umfang rannsókna efnahagsbrota jókst umtalsvert á árinu 2009 og hefur umfangið verið mikið síðan. Fjöldi starfsmanna sem hafa komið að þessum brotum hefur allt að sexfaldast. Störf embættis sérstaks saksóknara og þær rannsóknaraðferðir sem embættið hefur notað hafa gengið að mestu vel, að ég tel, og hafa einnig hlotið athygli út fyrir landsteinana. Það er því mjög mikilvægt að nýta þá miklu þekkingu sem byggst hefur upp á síðastliðnum árum í rannsókn og saksókn efnahagsbrota. Þekkingin er nú þegar farin að dreifast út til lögregluembættanna samhliða því að starfsemi sérstaks saksóknara hefur dregist saman og lögreglumenn þar af leiðandi farið til starfa hjá embættunum á ný. Sú þróun ásamt eflingu rannsóknardeildanna hjá löggæsluembættunum gerir það að verkum að hvert embætti ætti að vera betur í stakk búið til að takast á við stærri rannsóknarverkefni en þau hafa sinnt hingað til.

Virðulegi forseti. Ég tel einnig mikilvægt að horfa til þess sem sérfræðinefndin segir í skýrslunni, að mótað verði heildarskipulag rannsókna efnahagsbrota í þeim tilgangi að gera þær skilvirkari og markvissari og um leið tryggja sem besta nýtingu fjármuna sem ætlaðir eru í þessu skyni. Leiðir til þess eru m.a. að sameina á einn stað rannsókn efnahagsbrota, verkefni skattrannsóknarstjóra, verkefni peningaþvættisskrifstofu ríkislögreglustjóra og aðgerðir til að endurheimta ólögmætan ávinning af brotum. Tryggja þarf svo að þessi heild aðstoði og vinni með öðrum rannsóknarstofnunum innan lögreglunnar sem koma að hvers kyns hagnaðarbrotum og öðrum rannsóknarstofnunum eins og Samkeppniseftirlitinu og Fjármálaeftirlitinu. Takist þetta vel leiðir það til styttri málsmeðferðartíma og aukins réttaröryggis og minni hættu á spillingu mála. Þá mundu úrbætur auk þess leiða til betri nýtingar fjármuna með því að fjármunir sem nú eru settir í endurtekna rannsókn nýtast í önnur verkefni. Í þessari vinnu verðum við að passa upp á að efnið fái athygli og umgjörðin taki ekki allt fjármagnið og kraftinn til sín.