143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

rannsóknir og saksókn í efnahagsbrotamálum.

283. mál
[16:04]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér skýrslu innanríkisráðherra um skipulag og tilhögun rannsókna og saksóknar í efnahagsbrotamálum. Ég vil líkt og aðrir sem hér hafa tekið til máls þakka hæstv. ráðherra fyrir að beina málinu til þingsins með þessum hætti og eins nefndinni fyrir sína vinnu og tillögur. Eins og hér hefur verið rætt er málið á því stigi að því verður beint til allsherjar- og menntamálanefndar, væntanlega að tillögu ráðherra. Þá gefst tækifæri til þess að fara betur í bakgrunn og röksemdir þeirra tillagna sem reifaðar eru í niðurstöðu og tillögukafla skýrslunnar. Þess vegna tel ég kannski ekki tímabært að leggja mat á þá valkosti sem fram eru bornir þar sem nefndin á væntanlega eftir að fá til þess bæði tækifæri og ráðrúm að fá fram þær röksemdir sem þar liggja að baki og fá til sín gesti og ræða málið í hörgul.

Tilurð embættisins þarf að vera undir þegar þessi þáttaskil eru rædd, þ.e. sú staðreynd að við efnahagshrunið haustið 2008 urðum við þess áskynja í þessu litla samfélagi að við vorum ekki bara í miklum efnahagslegum vanda, raunar dæmalausum vanda, heldur var staðan líka þannig að það skorti á margs konar innviði samfélagsins til þess að taka á þeirri stöðu sem upp var komin. Að sumu leyti var um að ræða innviði sem þurfa líka að vera fyrir hendi þegar samfélag er í jafnvægi. Ég nefni til að mynda ýmsan umbúnað utan um stöðu skuldsettra heimila og fólks í miklum skuldavanda. Þar komum við að stöðu sem þurfti í raun að byggja upp algjörlega frá grunni.

Embætti sérstaks saksóknara er hluti af því umhverfi sem varð að verða til í kjölfar efnahagshrunsins. Það er mikilvægt fyrir okkur að halda því til haga að tilurð þess embættis var sannarlega til komið að gefnu tilefni, þ.e. þeim verkefnum sem embættið þurfti að takast á við, en ekki síður snerist tilurð embættisins um að skapa eitthvert traust í samfélaginu upp á nýtt, að ná hér einhverjum trúverðugleika aftur. Þess vegna skipti óendanlega miklu máli að þau þáttaskil sem lögð eru til í skýrslu nefndarinnar beri að á grundvelli slíks trúverðugleika, að við séum ekki með neinu móti að hverfa frá kjarna og innihaldi embættisins, þ.e. að hér standi ekkert annað til en að ljúka þeim málum sem þar hafa verið á borði, að botna þær rannsóknir sem þar hafa verið til umfjöllunar og að stuðla að því að (Forseti hringir.) þessi flóknu mál verði öll til lykta leidd.

Ég vænti þess að málið hljóti ítarlega og góða umfjöllun í hæstv. allsherjar- og menntamálanefnd.