143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

ráðstafanir gegn málverkafölsunum.

266. mál
[16:26]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu sem flutt er af mér og hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni og snýst um ráðstafanir gegn málverkafölsunum. Tillagan er í sjálfu sér einföld, hún snýst um að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra verði falið að setja á laggirnar starfshóp skipaðan fulltrúum Listasafns Íslands, Myndstefs, Bandalags íslenskra listamanna, Sambands íslenskra myndlistarmanna, embætti sérstaks saksóknara, sem fer með efnahagsbrot, og mennta- og menningarmálaráðuneytis. Hlutverk þessa starfshóps verði að gera tillögur að ráðstöfunum gegn málverkafölsunum og að skilgreina ábyrgð hins opinbera í lögum gagnvart varðveislu þessa hluta menningararfsins. Þá fái hið opinbera frumkvæðisskyldu til að rannsaka og eftir atvikum kæra málverkafalsanir.

Eins og kunnugt er hafa þessi mál lengi verið í umræðu. Það er á tíunda áratug síðustu aldar sem málverkafalsanir komast í almenna umræðu á Íslandi. Sú tilgáta hefur verið sett fram að hér hafi verið allt að 900 fölsuð myndverk, málverk og teikningar á sveimi á þessum tíma og talið er að einhver fjöldi listaverka, málverka, hafi verið eignaður íslenskum listmálurum úr hópi gömlu meistaranna og einnig færeyskum og dönskum listmálurum.

Tveir hæstaréttardómar hafa gengið vegna ákæru um málverkafölsun á síðari árum, dómur nr. 161/1999 og dómur nr. 325/2003. Sakfellt var í fyrra málinu en sýknað í því síðara, en sýknudómurinn snerist þó fyrst og fremst um formsatriði. Hér er ekki ætlunin að fara út í þá sögu, heldur má segja að þessi mál og þessi umræða hafi vakið spurningar um hvert hlutverk hins opinbera eigi að vera þegar kemur að svona málum.

Eftir að þessir dómar gengu skipaði þáverandi hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, starfshóp til að fjalla um viðbrögð við listaverkafölsunum og reyna að greina umfang vandans. Sá starfshópur skilaði tillögum um mitt ár 2005. Hann lagði fram ýmsar tillögur, m.a. að efla þyrfti rannsóknir á íslenskri listasögu, skrásetja upplýsingar um listaverk og eigendasögu. Hann benti líka á að yfirvöld hefðu ekki neytt allra úrræða sem tiltæk væru í lögum til að fást við málverkafalsara.

Starfshópurinn gerði tillögur um breytingar á höfundalögum, lögum um verslunaratvinnu og almennum hegningarlögum. Haustið 2006 flutti þáverandi hæstv. viðskiptaráðherra frumvarp til laga um breytingu á lögum um verslunaratvinnu, með síðari breytingum. Það frumvarp var samið í viðskiptaráðuneytinu og tók mið af tillögum starfshóps hæstv. menntamálaráðherra frá árinu 2005. Breytingarnar, sem stefnt var að með frumvarpinu, fólust einkum í því að þeim aðilum sem selja myndverk í atvinnuskyni yrði gert skylt að leggja fram eigendasögu myndverka og vekja athygli væntanlegra kaupenda á henni. Þá var áskilið að ef fyrirtæki hætti starfsemi í listaverkasölu skyldi það afhenda Listasafni Íslands þær upplýsingar um eigendasögu listaverka sem fyrirtækið byggi yfir.

Þetta frumvarp flutti sem sagt hæstv. viðskiptaráðherra, sem þá var Jón Sigurðsson, en það varð ekki að lögum. Það var endurflutt óbreytt haustið 2007, líklega hefur þáverandi hæstv. ráðherra Björgvin G. Sigurðsson flutt það, og gekk þá til viðskiptanefndar en frumvarpið náði ekki til lands og frekari tilraunir hafa ekki verið gerðar.

Ég vil nefna að þetta er eitt af þeim málum sem að sjálfsögðu kom inn á mitt borð þegar ég gegndi embætti mennta- og menningarmálaráðherra, en gengu ekki lengra þá í ljósi afdrifa þeirra frumvarpa sem áður höfðu verið lögð fram. Nú teljum við hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason rétt að taka upp þennan þráð og þingsályktunartillagan miðar að því að hér verði teknar upp öflugri ráðstafanir gegn málverkafölsunum.

Annars vegar snýst tillagan auðvitað um að verja einstaklinga sem hafa orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna kaupa á fölsuðum myndverkum. Þetta snýst um efnahagsbrot og þess vegna leggjum við áherslu á að fulltrúi sérstaks saksóknara taki sæti í þessum hóp. Hins vegar er markmiðið að vernda íslenska menningararfleifð fyrir þeim spellvirkjum sem falsanir fela í sér. Því má segja að málið sé margbrotið því að menningararfleifð samanstendur auðvitað af menningarminjum og menningararfurinn, þekking á honum og túlkun, á ríkan þátt í að móta og viðhalda menningarlegri sjálfsmynd einstaklinga og hópa. Það skiptir að sjálfsögðu máli að við stöndum sem best vörð um það sem við getum kallað menningararf.

Sú mikla áhersla sem er lögð núna í alþjóðlegri umræðu á þekktan og ósvikinn uppruna menningarminja er tiltölulega ný, en hún nýtur eigi að síður víðtækrar viðurkenningar sem ein af höfuðforsendum þess að slíkar minjar beri að varðveita. Ég nefni í því sambandi að mennta-, vísinda- og menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, gerir það að ófrávíkjanlegri kröfu fyrir því að menningarminjar fái sæti á heimsminjaskrá að þær séu ófalsaðar. Sömu kröfu gera að sjálfsögðu lista- og minjasöfn á Vesturlöndum til safnkosts síns.

Ég hef hlaupið hér yfir greinargerðina sem fylgir þessari tillögu. Ég tel hins vegar, og það var okkar niðurstaða sem hana flytjum, að réttast væri að nálgast málið á þeim breiða grunni að starfshópur verði settur á laggirnar og hann skili tillögum. Það má segja að þetta séu aðeins breiðari forsendur en hafðar voru til hliðsjónar hjá starfshópnum sem áður starfaði og ég nefndi áðan. Hér koma í raun og veru þessar tvær víddir inn, þ.e. að líta annars vegar á málið sem efnahagsbrot og hins vegar að horfa á hlutverk stjórnvalda og frumkvæðisskyldu stjórnvalda gagnvart því að varðveita menningararfinn.

Ég tel að ekki sé miklu meira um þetta að segja annað en að ég legg áherslu á að málið fái efnislega meðferð hér í þinginu. Það er löngu tímabært að skýra laga- og regluramma utan um viðskipti með myndverk og löngu tímabært líka að skoða áhrif slíkra falsana á menningarsögu okkar. Ég vonast því til þess að þessi tillaga, eftir skoðun hv. allsherjar- og menntamálanefndar sem ég legg til að málið gangi til að lokinni þessari umræðu, fái jákvæða afgreiðslu.