143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

sóknaráætlun skapandi greina til þriggja ára.

267. mál
[16:44]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta er tillaga til þingsályktunar, flutt af mér og hv. þingmönnum Árna Páli Árnasyni, Guðmundi Steingrímssyni og Birgittu Jónsdóttur. Þetta er einföld tillaga sem lýtur að því að Alþingi beini því til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra að leggja fram sóknaráætlun skapandi greina til þriggja ára, í framhaldi af fjárfestingaráætlun frá árinu 2012, og byggi á þeirri stefnu sem lagður var grunnur að í skýrslunni Skapandi greinar – sýn til framtíðar frá árinu 2012.

Í greinargerð förum við ágætlega yfir þetta en mikið verk var unnið í því á síðasta kjörtímabili að skoða möguleika nýrra atvinnugreina á Íslandi. Ein þeirra atvinnugreina hefur gengið undir samheitinu skapandi greinar, þ.e. atvinnugreinar sem byggja á listum og menningarstarfi en skapa hins vegar líka fjölmörg önnur störf. Nægir þar að nefna kvikmyndagerð sem er líklega umfangsmesta skapandi greinin sem við þekkjum og skapar bæði störf í því sem við teljum að lúti að listum og menningu en líka fjölmörg afleidd störf sem lúta að þjónustu við kvikmyndagerð og síðan margháttaðri tæknivinnu sem er auðvitað skapandi líka.

Farið var í talsverða greiningu að undirlagi þeirra sem starfa í þessum geira sem nálguðust nokkra hæstv. ráðherra síðustu ríkisstjórnar um það hvort skoða mætti hagræn áhrif af þessum greinum. Birt var úttekt, sem var svona fyrsta úttekt, sem benti til þess að veltan af þessum greinum væri talsvert meiri en menn hefðu áttað sig á. Sú úttekt sem kynnt var 2010 sýndi að þessar greinar hefðu velt tæpum 190 milljörðum árið 2009.

Þetta var auðvitað verkefni sem var í raun algjör frumkvöðlavinna. Þarna var fengið fólk sem hefur bæði þekkingu á viðskiptum og hagfræði en líka hinum skapandi greinum til að vinna þessa úttekt og miðuðu við staðla frá UNESCO við gerð úttektarinnar. Þó að ýmsir fræðimenn, og ég nefni sérstaklega Ágúst Einarsson, fyrrverandi hv. þingmann og prófessor, hafi fjallað talsvert um skapandi greinar og ekki síst um kvikmyndagerð má segja að þessi úttekt hafi kannski stimplað hinar skapandi greinar inn sem atvinnuveg og ekki aðeins sem lista- og menningarstarf.

Við þekkjum það sem höfum verið hér á þingi í nokkur ár að alltaf er mikil umræða um framlög til lista og menningar. Stundum er látið eins og listir og menning séu einhver sérstakur munaður sem megi jafnvel skera niður þegar illa árar. Ég er raunar þeirrar skoðunar, alveg óháð atvinnugildi lista og menningar, að samfélagslegt gildi þeirra sé slíkt að þær séu einmitt ekki munaður, þær séu ekki minnst nauðsynlegar þegar kreppa gengur yfir. Það sást til að mynda á Íslandi árið 2009, árið eftir hrunið, eftir að allt fór á hausinn. Þá fóru allir að taka slátur af því að þeir sáu fram á breytta tíma. Ég hef aldrei borðað jafn mikið slátur og þann vetur, veturinn 2008–2009, því að allir vinir mínir tóku slátur og gáfu mér það svo af því að þeir borðuðu það ekki, ég hef líklega aldrei borðað jafn mikið slátur.

Hvað gerðist annað? Við byrjuðum ekki bara að borða slátur og prjóna peysur, sem var líka talsvert gert af, heldur hefur aldrei verið jafn mikil ásókn í menningu. Það var metaðsókn í leikhús, metaðsókn á tónleika, viðskiptum á bókasöfnum fjölgaði og fleiri sungu í kór en nokkru sinni fyrr. Það var dálítið merkilegt. Þetta var rannsakað í þátttökukönnun sem heitir Menningarvogin og benti til þess einmitt að þörf fólks fyrir andlegt fóður væri ekki síst mikil á krepputímum.

Þessi tillaga horfir hins vegar ekki á samfélagslega gildið heldur snýst um atvinnusköpunina og efnahagslegt gildi. Við þráttuðum talsvert og þrættum um fjárfestingaráætlunina í tengslum við fjárlög og hún var því miður að miklu leyti slegin af. Ný ríkisstjórn ákvað líka að hverfa frá ákveðinni tekjuöflun, sem var undirstaða, og ég nefni sérstaka veiðigjaldið sem dæmi þar. En gott og vel, ég heyri ekki betur — af því að mér finnst ekkert gaman að vera alltaf að ræða um það sem gerðist í gær — en að menn vilji leggja talsverða áherslu á skapandi greinar. Ég heyrði hæstv. forsætisráðherra ræða það sérstaklega í áramótaávarpi sínu svo að dæmi sé tekið.

Við leggjum þessa tillögu ekki síst fram til þess að minna á alla þá vinnu sem búið er að vinna. Það er óþarfi, mér finnst það því miður of sterkt einkenni á íslenskri stjórnmálamenningu, að öllu sé rutt til hliðar bara af því að einhver annar gerði það. Það er engin á þörf á því, ef við bara ákveðum að við getum öll sameinast um eitthvað þá eigum við ekki að ryðja því til hliðar. Hér hefur verið unnin mikil vinna, því að í kjölfar þessarar úttektar á hagrænum áhrifum skapandi greina var ráðist í mikla stefnumótun sem snerist fyrst og fremst um það hvernig aðkomu hins opinbera væri háttað að hinum skapandi greinum og hvernig hún mætti vera betri. Það var sem sagt sú skýrsla sem heitir Skapandi greinar – sýn til framtíðar. Margt áhugavert sem hefur komið þar í ljós, til að mynda að sú grein sem hve flest sóknarfæri eru í, hönnun, fær hvað minnsta opinbera styrki. Hægt er að skoða hvernig við getum eflt þá grein með mjög einföldum og ódýrum aðgerðum, svo að dæmi sé tekið.

Skapandi greinar eru víðar en fram kemur í þessari skýrslu. Vil ég þá sérstaklega nefna tölvuleikjaiðnaðinn sem hefur blómstrað, ekki vegna opinberra styrkja, því að hann þiggur þá ekki, heldur vegna þess að hér hefur verið fólk sem hefur getað unnið innan tölvuleikjageirans og haft menntun á því sviði, í myndlist og sögugerð og öðru slíku. En þar hefur líka skipt máli að hafa umhverfi sem hið opinbera skapar. Aðkoma hins opinbera snýst ekki bara um styrki. Aðkoma hins opinbera snýst líka til að mynda um skattalegt umhverfi, skattalega hvata og fleira slíkt. Þessu héldum við öllu til haga á sínum tíma og eitt af því sem var gert var að auka endurgreiðslur til nýsköpunarfyrirtækja.

Sem betur fer, eftir talsverðar umræður hér á þingi, var hætt við þær áætlanir að hverfa alveg frá þeim endurgreiðslum til nýsköpunarfyrirtækja vegna rannsókna og þróunar. Það sem við erum að gera hér, og teljum að umræðan skipti þar máli, er að leggja til að teknar verði upp að nýju forsendur og hugmyndafræði fjárfestingaráætlunar fyrri ríkisstjórnar í því sem lýtur að skapandi greinum. Við heyrum að bæði forsætisráðherra og öðrum frammámönnum í stjórnarflokkunum hefur orðið tíðrætt um þessa atvinnugrein og við viljum minna á þá stefnumótun sem þegar er búið að vinna með geiranum, til að mynda með Samtökum skapandi greina, sem eru ný og öflug samtök, fólk sem lifir og hrærist í þessum geira. Við viljum minna á að hægt er að eiga það samtal áfram. Stundum vill brenna við að stjórnvöld ákveði hvaða leiðir séu bestar án þess endilega að eiga samtal við þá sem leiðirnar eiga að þjóna. Á það viljum við minna. Við leggjum til að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra verði falið að leggja fram áætlun til þriggja ára, því að þessar greinar þurfa stöðugleika eins og aðrar atvinnugreinar. Það skiptir máli að fólk geti reitt sig á hvað er fram undan því að þetta eru yfirleitt verkefni sem taka lengri tíma en nokkra mánuði og að á þeirri vinnu sem þegar hefur verið unnin verði byggt. Miðað við umræðuna á ég ekki von á öðru en að það gangi vel.

Eftir sjónvarpsþáttinn Kryddsíld á Stöð 2 var hringt í mig og gladdist viðkomandi sérstaklega yfir því að þegar hann hefði kveikt á sjónvarpinu hefðum við formenn stjórnmálaflokkanna verið að karpa um skapandi greinar. Viðkomandi sagði: Mikið gleðst ég yfir því að skapandi greinar séu komnar á það stig að verða aðalefnið í umræðuþættinum á gamlárskvöld. Eigum við ekki bara að gleðjast yfir því og ákveða þá líka, úr því að okkur öllum er umhugað um framgang þessarar atvinnugreinar, að við séum öll reiðubúin að vinna saman að því að leggja einhverja áætlun til næstu ára? Um það snýst þessi tillaga.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekkert að lengja þetta mikið frekar en legg til að í lokin á þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.