143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

sóknaráætlun skapandi greina til þriggja ára.

267. mál
[16:53]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég kem hingað upp til að fagna þingsályktunartillögu sem kemur frá fjórum hv. þingmönnum, m.a. formanni okkar, hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni, sem tók þátt í því á síðasta kjörtímabili að vinna að fjárfestingaráætlun sem mér fannst gríðarlega gott og merkilegt plagg sem miðaði að því að auka vægi skapandi greina í landinu. Við erum þekkt fyrir það íslenska þjóðin að vera með stóriðju og fisk sem aðalmál sem er mikið talað um. Þegar maður talar um skapandi greinar má nefna að til dæmis í fatahönnun hefur úrgangur frá fiski verið nýttur til að búa til föt. Þetta er allt samtvinnað. Mér finnst umræðan í þjóðfélaginu um skapandi greinar, menningu og listir, og hvað það er nefnt, oft alveg ótrúlega neikvæð og mjög erfitt að fylgjast með því hversu neikvæð hún er. Við erum að setja upp stóra póla. Það er alveg ótrúlegt að árið 2014 skulum við ekki vera komin lengra í umræðunni um skapandi greinar. Það er náttúrlega mjög jákvætt sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir nefndi áðan, að farið sé að karpa um skapandi greinar í Kryddsíldinni.

Það sem ég vildi líka segja er að maður tók eftir því í kjördæmavikunni í haust að fjárfestingaráætlunin og sóknaráætlun landshluta voru gríðarlega mikilvægar fyrir landið. Maður fann það á því hversu slegið sveitarstjórnarmenn og fólkið í kjördæminu var yfir því að þetta væri allt saman skorið niður. Það var í rauninni sláandi að fylgjast með því hversu fullt vonleysis fólk var yfir því. Það batt gríðarlega miklar vonir við þessar áætlanir og eins og kemur fram hérna var allt starfið unnið í miklu samstarfi sveitarstjórnarmanna og fólks á öllum stigum þjóðlífsins og í atvinnulífinu úti um allt land. Ég fagna því að þessi þingsályktunartillaga sé komin fram og hvet mennta- og menningarmálaráðherra til að skipa nefndina. Ég fagna því líka að málið kemur til okkar góðu nefndar, allsherjar- og menntamálanefndar, og að við fáum að ræða það þar.

Þetta er allt í takt við það sem við sögðum í Bjartri framtíð í kosningabaráttunni og lögðum mikla áherslu á, að byggja upp skapandi greinar og grænan iðnað, tækni- og hugverkageirann, ferðaþjónustu, rannsóknir og þróun. Þetta er gríðarlega mikilvægt fyrir landið. Við sjáum það til dæmis að núna í morgun var verið að skrifa undir fjárfestingarsamning á Suðurnesjum, þar sem er verið að notast við ótrúlega litla orku, 5 megavött, sem skapar 30 störf. Ég veit ekki hvort þetta eru skapandi greinar en þetta eru aðrar greinar og skapandi greinar og tillaga síðustu ríkisstjórnar miðaðist við að auka fjölbreytni í atvinnulífinu. Á síðasta ári fór líka Stolt Sea fiskeldisfyrirtækið á Suðurnesjum af stað sem nýtir sér heitt affall frá Reykjanesvirkjun. Við erum því að nýta orkuna og grænan iðnað alveg í botn. Ég ætlaði að fara upp undir liðnum um störf þingsins í dag til að nefna þetta vegna þess að það hefur ekki farið fram hjá neinum að á Suðurnesjum var ástandið hvað verst eftir hrun og atvinnuleysið fór upp í 15% árið 2010 en er komið niður í rétt rúm 5% núna, það eru því margir mjög góðir hlutir að gerast á Suðurnesjum og tækifærin liggja gríðarlega víða, kannski helst í ferðaþjónustu og skapandi greinum. Hljómsveitin Of Monsters and Men kemur einnig að stórum hluta frá Suðurnesjum og hefur hún aldeilis slegið í gegn. Það segir okkur hvað við getum fengið mikið út úr þessum geira með því að styrkja ungt, glæsilegt tónlistarfólk og listafólk í landinu til að koma sér á framfæri erlendis. Í síðustu viku, held ég að sé rétt hjá mér, var sú stórgóða hljómsveit að gefa peningagjöf til Barnaspítala Hringsins. Allt helst þetta í hendur við að efla samfélag okkar og gera það betra og manneskjulegra að búa í.

Það velkist enginn í vafa um að fiskvinnsla og fiskútgerð hefur reynst okkur sterkasta atvinnugreinin í gegnum tíðina og það er bara gott. Ég minni á að þegar við tölum um fiskvinnslu er suður í mínu bæjarfélagi, Grindavík, starfandi fyrirtæki sem heitir Codland sem er í eigu útvegsfyrirtækja þar sem hafa verið að vinna afurðir úr fiski sem áður var hent og auka þar með virðisauka þorpsins og fisksins ótrúlega mikið. Þetta er stórkostlegt verkefni sem er í gangi. Nú orðið er það þannig að engu af fiskinum er hent, það er allt nýtt og unnið. Þetta segir manni að þrátt fyrir allt eigum við Íslendingar góða framtíð, ég trúi því. Við erum rík af auðlindum og þar er ekki síst mannvitið, eins og kemur fram í greinargerðinni, sem er öflugasta auðlindin okkar. Við Íslendingar búum svo vel að eiga alveg óhemjumikið af færu fólki, fræðimönnum og fólki í skapandi greinum.

Ég fagna þessari tillögu og mun styðja hana heils hugar og vona að hún fái góða meðferð í meðförum nefndarinnar og að sóknaráætlunin verði samþykkt og unnin á grunni fjárfestingaráætlun síðustu ríkisstjórnar. Við eigum ekki að vera að rífast um það á Alþingi hvert eignarhald hugmynda er heldur eigum við að taka allar hugmyndir sem eru góðar og til þess gerðar að efla atvinnulíf okkar og samfélag, burt séð frá því hver kemur með hugmyndirnar. Mér finnst þetta oft snúast allt of mikið um það í þingsal hver á upphafið að hugmyndunum. Í fjárlagagerðinni í haust var til dæmis verið að tala um að það þyrfti að hagræða, spara og herða sultarólina en á sama tíma var verið að taka út rammaáætlun, náttúruverndarlög og við getum talað um samningsvinnuna við Evrópusambandið, þeirri vinnu á að henda út um gluggann. Hvað kostar það samfélagið? Hvað kostar það samfélagið þegar svona er gert? Við eigum að snúa bökum saman og vinna að því, hvar í flokki sem við stöndum, að efla atvinnulífið og samfélagið burt séð frá því hver kemur með hugmyndina, svo ekki sé meira sagt.

Ég styð tillöguna heils hugar og vona að hún nái fram að ganga og að við getum eflt viðleitni okkar til að efla atvinnulíf og fjölbreytta fjölbraut, ekki síst í skapandi listum og menningu sem er mjög rík og sterk á Íslandi.