143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

lagaskrifstofa Alþingis.

271. mál
[17:37]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég var að renna í gegnum þetta og hlustaði á hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur og er gríðarlega ánægður með þetta. Fyrsta spurningin mín átti að vera: Er henni alvara, ætlar hún að fara með þetta alla leið? Eftir að hafa hlustað á ræðuna, að hún hafi lagt þetta fram trekk í trekk, þá sýnist mér það.

Mig langar samt að láta spurninguna standa. Hún ætlar að vísa frumvarpinu til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og ég spyr hvort hún sé búin að tryggja stuðning síns fólks í nefndinni og hvort búið sé að undirbyggja farveg málsins þar í gegn. Nefndirnar stjórna miklu og hv. þm. Ögmundur Jónasson er formaður nefndarinnar og er þar af leiðandi með dagskrárvaldið. Hann getur sagt að ekki gefist tími til að setja málið á dagskrá og getur þar af leiðandi tafið málið ef honum svo sýnist, nema hann fari í frí og hv. þm. Brynjar Níelsson komi inn og keyri málið áfram.

Ég er með nokkrar spurningar. Hvers vegna er það lagadeild Háskóla Íslands sem skipar menn annars vegar og hins vegar Lögmannafélag Íslands að undanskildum forseta Alþingis? Hvers vegna voru þessir aðilar valdir til að skipa menn til starfa á lagaskrifstofu Alþingis? Það er frábært að þetta sé lagaskrifstofa Alþingis, að þetta sé hjá Alþingi. Við þekkjum það, þingmenn minni hlutans, að nefndarritararnir, sem aðstoða okkur við að semja lagafrumvörp og þingsályktunartillögur, hafa verið ofboðslega elskulegir og gjöfulir með tíma sinn, en samt sem áður eiga þeir að forgangsraða tíma sínum fyrir nefndarvinnuna vegna þess að þeir eru nefndarritarar. Þarna fá því þingmenn loksins sína aðila til að vinna að lagasetningu þannig að mér finnst þetta bara æðislegt.

Hv. þingmaður vill kannski byrja á að svara þessum spurningum og svo spyr ég meira.