143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

lagaskrifstofa Alþingis.

271. mál
[17:44]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit að það má ekki hrekkja, en ég verð að segja samt að mér finnst módelið sem þetta frumvarp byggir á skuggalega líkt því sem Evrópusambandið vinnur eftir.

Í annan stað átti ég frekar von á dauða mínum en því að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir kæmi hér og talaði sig upp í ástríðuþrótt til þess að reyna að ná fram frumvarpi sem hún flytur í anda Jóhönnu Sigurðardóttur, eins og hún sagði.

Þeim spurningum sem ég hafði um þetta frumvarp, sem mér finnst að ýmsu leyti athyglisvert, hefur hv. þingmaður svarað nú þegar að einhverju leyti. Hv. þingmaður hugsar sér lagaskrifstofuna þannig að þar séu fimm manns í fullu starfi og geri þá vart nokkuð annað. Það kemur fram að að minnsta kosti einn þeirra sem eiga að starfa á lagaskrifstofunni eigi að vera prófessor í lögum, reyndar tveir. Prófessor er ekki menntagráða, það er maður sem starfar við kennslu og rannsóknir í lögfræði í fullu starfi. Mig langar að biðja hv. þingmann að skýra þetta fyrir mér.

Hvað mun þetta svo kosta? Hv. þingmaður er frægt niðurskurðarbrýni í þessum sölum og ég vænti þess að hún sé búin að hugsa fyrir því. Skil ég þá rétt að í reynd eigi þetta ekki að kosta neitt af því að hún hugsar sér þetta þannig að lagaskrifstofan sem er núna í Stjórnarráðinu verði flutt þaðan og sett innan vébanda Alþingis þannig að kostnaðurinn í sjálfu sér ætti ekki að vera mikill?

Ef hv. þingmaður getur svarað þessu nokkuð vel er aldrei að vita nema stuðningur minn liggi eftir hér í stólnum.