143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

lagaskrifstofa Alþingis.

271. mál
[17:46]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Það er ekkert skrýtið að það sé einhver Evrópulykt af þessu frumvarpi, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, því að eins og ég fór yfir í framsöguræðu minni kom þessi hugmynd fram hér á landi frá Páli Péturssyni, þáverandi þingmanni Framsóknarflokksins, og hann studdist við yfirlit sem danska þingið hafði látið taka saman um lögfræðilegt eftirlit og sérfræðiráðgjöf í ýmsum þjóðþingum Evrópuríkja. Jú, það má alveg segja að þetta sé óskilgetið barn Evrópusambandsríkjanna en eigum við ekki að taka það besta frá Evrópu og sleppa hinu eins og því að ganga í Evrópusambandið?

Þarna kemur Evrópulyktin af þessu, virðulegi forseti, en það á heldur ekki alltaf að finna upp hjólið. Þarna var komin reynsla á þetta mál. Í þeirri rannsókn sem Páll Pétursson vitnaði í kom fram að í öllum þeim ríkjum sem athuguð voru var skylda þingforseta að athuga hvort frumvörp væru í samræmi við stjórnarskrá áður en þau voru tekin á dagskrá þjóðþinganna. Þetta var svarið við því.

Varðandi þá hugmynd hverjir eigi að starfa á lagaskrifstofunni tel ég að með því að fá prófessor í lögum að því teymi sem sett yrði upp hér samkvæmt þessu frumvarpi kæmi inn sú rannsóknarþekking sem prófessorar hafa yfir að ráða. Sá prófessor á að sjálfsögðu að vera menntaður í lögum eins og kemur fram.

Varðandi kostnaðinn fór ég líka yfir hann í framsöguræðu minni. Þetta kostar ákveðið til að byrja með en þjóðhagslegur ávinningur til lengri tíma litið verður svo mikill að kostnaðurinn við þessa lagaskrifstofu verður mjög lítill.

Nú er tíminn runninn út. (Forseti hringir.) Ég ætla að taka svarið við spurningunni um kostnaðinn betur í seinna andsvari.