143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

lagaskrifstofa Alþingis.

271. mál
[17:48]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir óvanalega skýr svör í minn garð. Ég skil málið töluvert betur, þó ekki að öllu leyti, en ég vil segja að það sem hv. þingmaður kallar Evrópulykt af þessu máli er í mínum vitum hreinn og höfugur blómailmur. Mér finnst það strax skýr merki um að hv. þingmaður er að því er varðar Evrópu að þroskast allmjög fyrst hún er að minnsta kosti farin að segjast vilja taka það sem gott er hjá Evrópusambandinu en skilja annað eftir.

Mér skildist samt á ræðu hv. þingmanns að hún hugsaði sér það svo að ef skrifstofa af þessu tagi yrði sett upp ætti hún að vera Stjórnarráðinu til ráðgjafar, sem og þingmönnum og Alþingi, en á móti að leggja niður þá lagaskrifstofu sem mér skildist á máli hennar, og vissi ekki fyrir, að samanstæði af fimm starfsmönnum í forsætisráðuneytinu.