143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

lagaskrifstofa Alþingis.

271. mál
[17:50]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, flutningsmanni frumvarpsins, kærlega fyrir að leggja það fram og fara mjög vel yfir það.

Ég ítreka að ég mundi gjarnan vilja vera meðflutningsmaður á þessu máli, ég er mjög hlynntur því. Enda hver væri það ekki? Hver er ekki hlynntur öllu því sem snýr að vönduðum vinnubrögðum? Þetta er í anda ýmissa mála sem verið hafa í deiglunni, meðal annars er hér þingsályktunartillaga frá hv. þm. Pétri H. Blöndal sem snýr að úrvinnslu lagafrumvarpa og svo höfum við verið með það til umræðu að létta reglubyrði í atvinnulífi og fleira sem tengist þessu.

Ég vil fá að spyrja um núverandi fyrirkomulag. Í hverju felst sannarlega munurinn ef slíkri lagaskrifstofu yrði komið á? Í öðru lagi spyr ég, og það er á svipuðum nótum og hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom inn á, um þessa tvo prófessora í lögum. Í þriðja lagi er það lagaráð sem löngum hefur verið, eða lagaskrifstofa. Eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir kom inn á hefur þetta verið lagt fram áður, hún hefur lagt það fram hér undanfarin löggjafarþing. Og ég spyr: Af hverju hefur þetta ekki fengið framgang?