143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

lagaskrifstofa Alþingis.

271. mál
[17:53]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa fyrirspurn. Hv. þingmaður nefnir hér að nú þegar séu tvö mál fyrir þinginu, eitt frá hv. þm. Pétri Blöndal, varðandi úrvinnslu lagafrumvarpa, og svo er það annað frumvarp sem er í þinginu frá ríkisstjórninni, um regluráð.

Það er mjög mikilvægt að mínu mati að nú taki stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þessi þrjú þingmál og ræði þau saman á fundum sínum. Og þó að breyting yrði á frumvarpinu sem ég legg hér fram, og einhverjar aðrar áherslur sem hv. þingmenn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd leggi fram, þá er það mér algerlega að meinalausu því að ef markmiðið næst hér, um að stofna einhvers konar skrifstofu við þingið sem geri að verkum að hér verði lagasetningu breytt til batnaðar til langrar framtíðar, þá er ég ánægð. Það sjá allir að sá kostnaður sem hlýst af þeirri slöku lagasetningu sem nú viðgengst hér í þinginu, fyrir dómstólum og hjá umboðsmanni Alþingis, gengur ekki lengur, sérstaklega ekki þegar við erum að reyna að spara í ríkisrekstri og að koma heimilunum á fætur á nýjan leik. Það er mér að meinalausu og ég geri það hér að tillögu minni, því að ég veit að þingmaðurinn á sæti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, að þetta væri afar snjöll leið til að finna út úr þessu.

Hv. þingmaður spurði líka hvers vegna frumvarpið hefði ekki fengið framgöngu á síðasta kjörtímabili. Það var líklega vegna þess að ég sat í stjórnarandstöðu og þetta þóknaðist ekki þáverandi forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur. Um leið og þetta frumvarp var komið fram var drifið í að stofna lagaskrifstofu Stjórnarráðsins, sem var alveg ótrúlegt, sérstaklega vegna þess að sem þingmaður lagði hún til að stofnun af þessu tagi skyldi vera við Alþingi til að tryggja þrískiptingu ríkisvaldsins. En fólk skiptir um skoðun þegar það kemst í ríkisstjórn.