143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

lagaskrifstofa Alþingis.

271. mál
[17:56]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir spurningar sínar og vangaveltur. Það sem ég var kannski að hugsa, varðandi það að forseti Alþingis skuli skipa einn lagaprófessor, var það að þá yrðu það raunverulega toppeinstaklingarnir í lagavisku á Íslandi sem kæmu að þessu. Í nágrannalöndum okkar, á Norðurlöndunum, er það svo að þegar lögfræðingur útskrifast úr skóla fer hann gjarnan út á almenna vinnumarkaðinn og vinnur þar sem lögfræðingur. Síðan fer hann inn í ráðuneytin og þeir allra bestu, þegar þeir eru orðnir hoknir af reynslu, (Gripið fram í: Þá fara þeir á þing.) enda á lagaskrifstofunum. Þá eru þeir búnir að fá þekkingu og reynslu af því að vinna með lögin og koma svo mjög hæfir til að leggja mat á það hvort lögin standist eða ekki. Það var hugsunin með þessu.

En ég þakka góð orð þingmannsins, um að hann hlakki til að vinna með frumvarpið, og hvet hann til að stuðla að því að þessi þrjú mál verði rædd saman.